16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

99. mál, sala þjóðjarða

Stefán Stefánsson:

Eg fæ ekki betur séð, en að frumv. þetta standi í nánu sambandi bæði við þjóðjarðasölulögin og við lögin um forkaupsrétt leiguliða, þar sem hér er að eins að ræða um sölu á þjóðjörðum; það er því öldungis undraverð staðhæfing, sprottin af misskilningi hjá háttv. þm. S.Þing. (P. J.), þegar hann heldur því fram, að frumv. standi ekki í nokkru sambandi við lögin um forkaupsrétt, frá 20. okt. 1905. Eg sé svo ekki nauðsynlegt að ræða þetta mál frekar hér við 1. umr., en held því enn fram, að það verði sett í nefnd; hvort kosin verður í það sérstök nefnd eða því vísað til landbúnaðarnefndarinnar skiftir minstu.