14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (2134)

71. mál, eiðar og drengskaparorð

Framsögumaður (Jón Þorkelsson):

Í nefndaráliti þessa máls er þess getið, að gerð muni frekari skýringagrein fyrir frumv. þessu frá nefndarinnar hálfu. Við nefndarálitið hefi eg reyndar litlu að bæta. Fáar breytingar hafa í nefndinni verið gerðar á frumv., sem mikla þýðing hafi. Einar tvær þeirra eru efnisbreytingar, en hinar aðrar eru að eins orðabreytingar.

Önnur aðalbreyting vor er sú, að tekinn verði upp fyrir kristna menn bókareiðurinn, sem tíðkaðist hér á landi fram í byrjun 18. aldar, og enn tíðkast í öllum brezkum löndum.

Það er eigi ómögulegt, að verði haft á móti breytingu þessari, að erfitt sé að flytja biblíuna með sér, er réttarhöld eru haldin víðsvegar í héruðum. En svo mun nú þó víðast bókinni varið, að hin heilaga ritning sé til á flestum heimilum landsins, og því eigi ókleyft að fá hana léða. En þó svo væri nú eigi, mætti láta nægja fyrsta kapítulann af Jóhannesar guðspjalli eins og áður tíðkaðist. Þá var hann ritaður fremst í lögbækurnar, og var það látið duga.

Hin aðalbreytingin frá núgildandi lögum er sú, að eiður skuli unninn og drengskapur við lagður, áður vætti sé borið. Virðist og svo sem menn fyrr á tímum hafi unnið eiða hér á landi á undan því að vætti væri borið, og svo er enn með brezkum þjóðum. Skal eg eigi um það segja, hvort sé í raun og veru heppilegra, og mér það atriði kapplaust.

Áminningar við eiðatökur höfum vér eigi samið. Álítum vér að landstjórninni beri að sjá um slíkt. Hins vegar látum vér fylgja áliti voru þrjár fornar útskýringar eiða. Eru þær frá ýmsum tímum, og ætlumst vér til, að þær séu til hliðsjónar og fróðleiks.