16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

105. mál, hvalveiðar

Jón Jónsson (S.-Múl.):

Af því að það hefir atvikast þannig, að hvorugur okkar flutnm. hafði búist við að hafa framsögu í þessu máli í dag, þá langaði mig til þess að bæta nokkrum orðum við það sem sagt hefir verið, en skal þó vera fáorður.

Það er óhætt að fullyrða, að á Austfjörðum stendur almenningsálitið á bakvið frv. þetta, og það á rót sína að rekja til þess, að almenningur þar er sannfærður um, að hvaladrápið sé til skaðsemdar fyrir síld- og fiskiveiðar, vegna þess að síldin flýr undan hvölum upp að landinu. Þetta er ekki einungis skoðun manna á Íslandi, heldur er sömu skoðun haldið fram í Noregi og víðar. Eg veit vel, að vísindin fallast ekki á þessa skoðun, en eg hygg, að þau séu heldur ekki komin að nokkurri endilegri niðurstöðu svo að líta megi svo á, að málið sé óútkljáð af beggja hálfu.

Eg ætla ekki að fjölyrða meira um þetta atriði, en vildi leyfa mér að benda á aðra hlið málsins. — Eg lít svo á og fleiri menn, að hvalirnir, sem eru við strendur Íslands séu frekar okkar eign heldur en annara manna; þótt við ekki getum sannað það með lögum, þá er að minsta kosti eðlilegt, að líta þannig á málið. Hvalaveiðunum er nú einusinni þannig háttað, að þær hljóta alt af að verða það, sem á dönsku kallast »Raadrift« — að höfuðstól er eytt, með öðrum orðum: menn taka ekki að eins afurðirnar og tekjurnar, heldur eyða einnig stofninum. — Ef við eigum hvalina og ef um »Raadrift« er að ræða, þá er um leið eytt kapítali, og það er ekki minsti vafi á því, að svo er, því að hvölunum hér við land fækkar meira en fjölgar vegna veiðanna. Ísland verður þar af leiðandi fátækara og höfuðstól, sem það á, er eytt.

Þótt vér höfum ekki menningu eða fé til þess að hagnýta þennan höfuðstól sem stendur, þá er þó vonandi, að vér verðum menn til þess seinna, og þá er illa farið ef höfuðstóllinn er horfinn með öllu. Það er á þessa hlið málsins, sem eg vildi að hin hv. þd. liti, um leið og hún ræðir frv. að öðru leyti.