16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

105. mál, hvalveiðar

Ráðherrann (H. H.):

Það getur vel verið, að hvalirnir styggist, þar sem hvalaveiði hefir verið rekin um langan tíma, og að hvalveiðamennirnir hafi flutt sig frá Vestfjörðum, getur einmitt stafað af því. Annars er þó enn á Vestfjörðum ein hvalveiðastöð og gengur veiðin þar engu ver en á Austfjörðum. En þótt maður viðurkenni, að hvalirnir styggist og hvalaveiðin þar af rýrni um tíma, þá leiðir ekki þar af, að hvalirnir upprætist. Þeir geta komið aftur og það er t. d. ekki mjög ólíklegt, að Norðmenn flytji hvalveiðastöðvar sínar aftur til Vestfjarða. H. háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) lét í ljós í ræðu sinni, að hvalveiðastöðvar væru hvergi nema nálægt suður og norðurheimskautinu. En mér er þó kunnugt, að hvalveiðar eru stundaðar í Kyrrahafinu, við Japan, Kína, Ameríku og víðar. Get eg vísað til bókar dr. Hjorts um þetta efni. Það er heldur ekki létt að skilja, að við fremur öðrum eigum þá hvali, sem sveima hingað að landinu sunnan úr höfum, og eru á sífeldu hvarfli um sjóinn. Hvali þessa mætti líka drepa án þess að flytja skrokkana nokkurs staðar að landi. Lögin næðu ekki tilgangi sínum og yrðu að eins landinu til tekjumissis, án þess að tryggja landinu neinn ábata af neinu tagi í staðinn. Eg held það því mjög misráðið að setja lög eins og þessi.