12.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

107. mál, heilsuhælissjóður

Flutningsmaður (Ólafur Briem):

Ástæðan fyrir því, að komið er fram með frumv. þetta, er sú mikla hætta, sem stafar af berklaveikinni og sem vofir yfir landi og lýð. Læknarnir segja sýkingarhættuna svo mikla og veikina svo skæða, að engin önnur veiki komist í samjöfnuð, að því er það snertir. Erlendis er líka barist á móti þessum óvin mannkynsins af miklu kappi, og stórfé varið árlega til þess að stemma stigu fyrir henni, og því fé þykir sannarlega vel varið. — Hér á landi hefir líka myndast félag til þess að hefja ötula baráttu gegn veikinni. Félag þetta nær yfir land alt og hefir mjög mikið áunnið og safnað all-miklu fé í sjóð. En hér má betur, ef duga skal. Gjafir og samskot hafa komið inn í tugum og hundruðum króna, en þegar athugað er, þá hlýtur kostnaðurinn að verða í tugum og hundruðum þúsunda. — Einn af merkustu læknum landsins hefir nýlega skrifað ítarlega blaðagrein áhrærandi þetta mál. Hann segir, að veikin sé alt af að breiðast út meir og meir, og líkindi til þess, að hún magnist hér meir en annarsstaðar, ef ekki er kostað kapps um að stemma stigu fyrir henni. Reyndar er heilsuhælisfélagið tekið til að starfa af miklum dugnaði, en framkvæmdir þess ekki nema að nokkru leyti miðaðar við hvað þarf að gera, heldur við hvað hægt er að gera með því fé, sem fyrir hendi er. Áætlun hefir verið gerð yfir, hvað heilsuhæli fyrir berklaveika, sem rúmaði 50 sjúklinga, mundi kosta, og þar er gert ráð fyrir því, að hælið sjálft upp komið mundi kosta alt að 200,000 kr., og að reksturskostnaður sé minst 40,000 krónur. — Færeyingar, sú litla þjóð, hafa nýlega reist spítala handa 40 berklaveikum sjúklingum. Ef við lítum á þá, ætti okkur ekki að vera of vaxið að reisa spítala fyrir 80 sjúklinga. Ef slíkt heilsuhæli ætti að vera fjárhagslega trygg og svo fyrir komið, að það gæti staðið án þess að þurfa árlegar fjárveitingar úr landssjóði, þá veitti ekki af höfuðstól, er næmi heilli miljón, þegar maður reiknar kostnaðinn við það, að koma því upp í fyrstu, og svo reksturs-kostnaðinn »kapítaliseraðan« eða með öðrum orðum uppgerðan þannig í eitt skifti fyrir öll, að renturnar af þeirri fjárupphæð nægðu til þess að standa straum af hinum árlega reksturs-kostnaði.

Þessi fjárupphæð gæti fengist með því að leggja vínfangatollinn fyrir tvö fjárhagstímabil til þessa þýðingarmikla fyrirtækis, og við það er frv. miðað. Tollurinn af vínföngum um 3 síðustu ár hefir verið árlega að jafnaði full 200 þús. kr., og ef miðað er við tollhækkun þá, sem verið er að lögleiða á þessu þingi, þá ætti upphæðin með sama innflutningi og undanfarin ár, að nema alt að 375 þús. kr. á ári. — Nú má ganga að því vísu, að vínkaup mundu minka að mun vegna tollhækkunarinnar, en sennilegt er þó, að gera ráð fyrir því, að tollurinn fari ekki niður úr 225 þús. kr. á ári eða 1 miljón fyrir 4 ár. í frumv. er miðað við það, að vínfangatollurinn um téð árabil nægði til þess að tryggja þetta nauðsynja fyrirtæki í bráð og lengd. En þegar veikin væri farin að réna, þá mætti verja sjóðnum til annara líknarstofnana eða fyrirtækja í sömu átt.

Sami læknir, sem reiknað hefir út kostnaðinn við heilsuhælið, sem fyr er frá greint, hefir líka reynt að gera lauslega áætlun yfir, hve mikinn skaða þessi skæða veiki baki þjóðinni. Eg skal ekki fara neitt út í þann útreikning. Það er eins og gefur að skilja, ekki auðið, að reikna slíkt nákvæmlega út með tölum, en það ætti að vera nóg til þess að sannfæra þjóðina um það, hvílíkur voði er á ferðum, ef eigi strax er ötullega við snúist.

Frumv. þetta stendur í nokkurskonar sambandi við hið fyrirhugaða aðflutningsbann áfengis. Og er þá gert ráð fyrir því, að bannlög komi ekki til framkvæmdar fyr en eftir 4 ár, að loknu næsta fjárhagstímabili, þannig, að áfengistollurinn fyrir téð tímabil 1912—1915, renni í sérstakan sjóð, er nefnist »Heilsuhælissjóður Íslands«, og sem ætlaður er til þess að standa straum af öllum útgjöldum hins fyrirhugaða heilsuhælis, bæði stofnkostnaði og reksturs-kostnaði, svo að þessi nytsemdarstofnun sé fullkomlega trygð í bráð og lengd, án þess að landssjóður þurfi að hafa þar af neinn veg eða vanda.

Eg lít svo á þetta mál, að auk þess sem það ætti að vera alvarlegt íhugunarefni, þá eigi það einnig að vera tilfinningamál, og ef það fengi góðan framgang, þá væri þar með stigið spor í áttina til þess að ná því marki, er sérhver þjóð hlýtur að keppa að og er frumskilyrði allrar farsældar, en það er, að um sem flesta af hennar einstaklingum megi segja með sönnu, að heilbrigð sál búi í hraustum líkama.