02.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

9. mál, ellistyrkur

Framsögum. (Kristinn Daníelsson):

Það er ekki ástæða til að tala langt mál um frumvarp þetta nú, því að samkomulag var svo gott um það við síðustu umræðu, að nú er líklega ekkert eftir annað en að samþykkja það óbreytt. Það hafa einkum komið fram 2 stefnur í þessu máli. Önnur sú, að binda styrkveitinguna við aldurstakmark, en hin vill aðallega taka tillit til þess, hvar þörfin er mest, hvort sem ungur eða gamall á í hlut. Frumvarpið fer að nokkru leyti bil beggja, og þó að hvorugu takmarkinu verði náð til fulls, mun það verða stórt spor í áttina til þess, að báðum verði náð á endanum, svo að á sínum tíma komi að því, að sjóðurinn verði nokkurskonar alm. eftirlaunasjóður fyrir alla ellihruma og öryrkja menn.