08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

110. mál, þingtíðindaprentun

Jón Þorkelsson:

Eg vil lýsa því yfir, að eg hefi ekkert á móti því, að nefnd sé skipuð til að athuga þetta mál. En runnið hafa á mig tvær grímur um það, hversu með það skyldi fara að öðru leyti. Prentun þingtíðindanna hefir vitanlega mikinn kostnað í för með sér, en hinsvegar er ekki þýðingarlaust fyrir söguna, hvort hætt er að prenta tíðindin eða ekki. Ýmsar raddir hafa heyrst um lestur þingtíðindanna; sumir segja, að þau séu mikið lesin og aðrir, að þau séu lítið lesin. En yfirleitt vantar þó yfirlýsingar um, hver vilji landsmanna sé í þessu máli. Að minsta kosti minnist eg ekki að hafa séð eða heyrt yfirlýsingar frá nema einu kjördæmi.

Áður en gengið er til atkv. vil eg leyfa mér að gera þá fyrirspurn til háttv. forseta, hvort það sé rétt, sem eg hefi heyrt fleygt, að eftir að búið var að semja um prentun á skjalapartinum, hafi annari prentsmiðju verið veitt vilyrði fyrir ræðupartinum. Ef svo er, álít eg heimildarlaust og rangt og ganga samningsrofi næst að ætla nú í þetta sinn að girða fyrir prentun umræðanna á þingi hér. Svör forseta hér um munu ráða atkvæði mínu í máli þessu að svo gjörvu.