23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Hannes Hafstein:

Mig furðar stórlega á því, að háttv. meðmælendur frumvarpsins skuli vera svo lítillátir að 5-menna á ekki feitari dróg, en sú getsökin er, að vér andmælendur frv. höfum tekið einhverju sérstöku ástfóstri við hið Sameinaða gufuskipafélag, og séum þess vegna frv. mótstæðir. Þetta hafa þeir étið hver upp eftir öðrum, framsögumaður (B. Kr.), þingm. Snæf. (S. G.), þm. N.-Þ. (B. Sv.), þm. Húnv. (B. S.) og 2. þingm. Rvk. (M. Bl.) og þótst miklir af. — Háttv. framsm. (B. Kr.) lagði sérstaka áherzlu á það, að við værum málssvarar eða jafnvel lífsábyrgðarfélag fyrir hið Sameinaða gufuskipafélag og var það víst svo að skilja, að fengi Sameinaða gufuskipafélagið ekki þessar 40 þús. kr. af landssjóði, sem tilboð þess fer fram á, þá væri því dauðinn vís! Mig furðar stórlega á því, að þeir herrar skuli ekki hafa þá sjálfsdómgreind, að finna það, að það sem þeir hér kenna oss um, það mætti með miklu meira rétti eða líkindum bera þeim sjálfum á brýn, þeim, sem svo ómótmælanlega eru að prókúrera fyrir hagsmunum Thore-félaginu til handa, og reyna að tryggja líf þess. Ekki förum vér andmælendur frumv. fram á fjárveitingu til neins sérstaks félags. En þeir? Þeir vilja leggja hálfa miljón króna til handa einu tilteknu félagi, og 60 þús. kr. á ári að auki gegn því, að landið fái 500 þús. kr. aktíur í — mildast talað — vafasömu fyrirtæki, sem landssjóður getur tapað stórfé á árlega, og ferðir, sem naumast verður sagt, að séu að neinu verulegu betri en þær, sem oss standa til boða fyrir 40 þús. kr. tillag á ári að eins. Það lægi vissulega nær, að við köstuðum þessum ástfósturs- og lífsábyrgðar-hnútum að þeim, en þeir að oss, en vér viljum láta aðra um að gera slíkt. Það fer að verða leiðinlegt þetta eilífa úrræði þeirra háttv. þingm., sem hér eiga hlut að máli, að reyna að gera andmælendurna tortryggilega.

Það hefir verið marg-tekið upp af hinum háttv. 5-menningum, að eg hafi vanrækt að leitast við að fá haganlegri og ódýrari samgöngur, en verið hafa, og ekkert gert til þess að bæta verzlunina; en hvað vita þeir um þetta? Þeir vaða hér elginn um það, sem þeir ekkert geta sagt um, og er það markleysa tóm.

Háttv. flutningsm. (B. Kr.) sagði í gær, að ef nú kæmi aðgengilegt tilboð frá Sameinaða gufuskipafélaginu, þá væri það full sönnun þess, að eg hefði verið því hliðhollur, og hlíft því við að gera betra tilboð! Hlíft því! eins og eg geti skyldað félagið til að bjóða. Á hverju ári hefir félagið látið í ljósi, að það skaðist á því að þiggja íslenzka tillagið — sem varla nemur því tapi, sem oft er á einu af skipum þeirra —, gegn því, að hlíta skilyrðum þingsins, og mundi hafa miklu meiri hag eða minna tap af því að sigla við land hér án styrks og skilmála af Íslands hálfu, að eins með danska pósttillaginu. Hvernig ætti eg að skylda félagið til þess að gera nokkur boð yfir höfuð? Í þetta skifti var enginn, sem bauð á móti því — og samt lánaðist að fá eins gott og hagkvæmt boð, eins og raun hefir á orðið. Hefði andkepni sú, sem nú er fram komin, verið þá, getur hugsast, að hægt hefði verið, að ná enn þá hagkvæmari kjörum. En þá þagði Tuliníus, og meira en þagði, hann gerði gagnvart mér alt til þess að láta mig standa í rangri meiningu um það, að hann ætlaði sér als ekkert að gera, að eins krefjast hækkaðrar borgunar fyrir pakkapóstinn.

Þeir 5-menningarnir eða einhverjir af þeim eru að bera blak af þessum skollaleik Tuliníusar með því, að eg hafi reynst honum svo illa áður, að ekki hafi verið von til þess, að hann treysti mér til neins. En þetta eru hrein ósannindi. Eg hef ekki vísvitandi stígið á það stráið, sem herra Tulíniusi megi miður líka, nema að því leyti, sem eg, eins og skyldan bauð, hef aðhylst það tilboð, sem var betra en hans árið 1905. Eg hef heldur ekki orðið var við það á neinn hátt, að herra Tulíníus bæri til mín lakara traust en margra annara, sem nú er hátt hossað. Hann hefir verið mjög alúðlegur og mjúkmáll við mig, og eg hef reynt að gera það, sem eg hef getað fyrir félag hans, mælt oftar en einu sinni fram með því við póststjórnina dönsku um aukinn styrk, og jafnvel fengið því framgengt við innanríkisráðherrann 1907 — með miklum erfiðleikum þó —, að eg mætti ráðstafa danska póstskipatillaginu ásamt íslenzka styrknum, ef alþingi aðhyltist tilboð frá Thore-félaginu þá, eða það gerði betri boð en hið Sameinaða gufuskipafél. En hvorugt varð. Að hann alt í einu fer að fara kringum mig, og jafnvel gefa mér skakkar hugmyndir um tilgang sinn, sýnir að eins, að honum hafa þótt aðrir líklegri en eg til þess að tefla slíkt tafl, sem hér er verið að tefla, og því séð sig þurfa að leita á annan skjá um fylgi til þessa máls, og var það ekki skakt á litið.

Það var sagt í gær af einum þingmanni hér í deildinni, að eg hefði brotið á móti fyrirmælum fjárlaganna, er eg gerði samninginn við Sameinaða gufuskipafélagið síðast, og fékk ferðirnar fyrir 10,000 kr. lægri upphæð, en veitt var í fjárlögunum. Þetta er að eins ein af hinum venjulegu illsökum, sem þessum h. þingm., er svo tamt að troða. Sannleikurinn er sá, að skilyrði fjárlaganna um bygging nýrra skipa var aðallega eða eingöngu sett fyrir því, að binda mætti landið um 8 ára tíma, og það var sjálfsögð skylda mín, að fá eins góðar ferðir og eg gat fyrir eins lítið verð, eins og eg gat, úr því hið Sameinaða gufuskipafélag neitaði að ganga að þessum skilyrðum þingsins óskorað, og als ekki vildi nein ný skip byggja þá.

Viðvíkjandi hinum fyrirheitnu breyt.till. hins háttv. þingm. Dal. (B. J.) er ekki hægt að segja mikið um. En þó að breytt sé orðalaginu þannig, að einhver hausavíxl verði í orði kveðnu, þá er eg hræddur um það, að efnisbreytingin verði ekki svo mikil, að það geri neinn verulegan mismun. — Eftir því sem honum fórust orð, þá sé eg ekki betur, en að röddin haldi áfram að vera Jakob, þó að höndin verði Esaús, og mun hér um glímubragð eitt að ræða.