23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Bjarni Jónsson:

Eg ætla að skýra það hvað forgönguhlutir þýða. Að svara lærdóms-spurning háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) er mjög auðvelt að svara. Auðvitað þýða forgönguhlutir það, sem hann sagði, en þeir geta þýtt fleira, því að áreiðanlegt er, að utan hins danska heims, er þetta ekki fast hugtak. Stundum er svo ákveðið, að þeir gefi 4% á undan öðrum, og síðan er aðrir hluthafar hafa fengið 4% af því, sem eftir var, aftur 2% í forgöngu og svo koll af kolli, eftir því sem um semur.

Enn er ein tízka um forgönguhluti, að auk þessa, sem nú var talið, að þeir séu eigi skertir fyr en annað fé félagsins er þorrið. Það eru ósannindi hjá háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.), að slíkir forgönguhlutir séu einkisvirði. Það er og ósatt mál, að hér sé ætlast til þess, að landssjóður greiði skuldir Thore-félagsins. Enda er það óhugsandi, að þessi háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) trúi því um nokkurn þingmann, að hann mundi ljá fylgi sitt til slíkra hluta. Hlýtur þingmaðurinn því að vera spánskur þingmaður. — En það er svo kalt kattar-gaman, að enginn þingmaður ætti að leyfa sér slíkt.

Fleira var það í ræðu háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), er vert væri að minnast á, en alþm. er nú dauður og gamall málsháttur segir: »Nil mortuis nisi bene« og mun eg því ekki eltast við illyrði hans, enda er mér fjarri að verða keppinautur þeirra, er á náinn leggjast. En um þessa forgönguhluti er það sannast sagt, að þeir eru með því móti, er eg nefndi síðast, og má eigi snerta þá fyr en þorrið er arðfé félagsins.

Það er tekið skýrt fram af umboðsmanni þessa félags, að þessir hlutir verði ekki snertir, fyr en annað fé er þrotið, og fái trygða 4%. Eg nenni ekki að svara munnskálpum þessa dauða manns, sem sí og æ gegnir fram í, en það eitt get eg sagt honum, að útúrsnúningar eru hér árangurslausir, því að eg hefi fyrir mér skýlausa yfirlýsingu mannsins, og getur hver spurt hann um það sem vill. Eg gat þess áðan í hverju breytingarnar væru fólgnar. En frekari skýringar mun eg láta bíða næstu umr., því eg hef afhent nefndinni allar breytingartillögurnar, og mun hún leggja þær fram við 2. umr. þessa máls. Að kaupa hluti í Thorefélaginu, það er að eins ritvilla, því að engum hefir komið slíkt til hugar.

Einhver gat þess til út af minni fyrri ræðu, að ekki færi alt af saman ættjarðarást og hagnaður kaupmanna landsins. Eg tók það fram, að kaupmenn mundu vera svo hygnir menn, að þótt það gæti verið stundarhagnaður að skifta við keppinaut Thorefélagsins, eða réttara sagt, eins og það nú er nefnt, »Eimskipafélag Íslands«, þá mundi það ekki verða að staðaldri; einungis á meðan það væri að komast í fastar skorður eða ná öruggri fótfestu, mundi keppinauturinn ná sér niðri. Þetta hugði eg að íslenzkir kaupmenn mundu sjá, og á þeirri glöggskygni þeirra bygði eg, en ekki eingöngu á ættjarðarást þeirra. Það er því engin ástæða að óttast það, að landsútgerðin yrði undir í samkepninni. Aðalatriðið er að taka útgerð þessa í sínar eigin hendur, því með því má breyta leiðum verzlunarinnar. Þá má koma á beinum ferðum milli Reykjavíkur og Hamborgar, svo sem eðlilegast er. En á meðan samið er við dönsk félög, verður sem fyr, að þýzkar vörur verða að fara krókaleið til Hafnar, eða þá mæta afgangi í Leith. Er það alkunnugt, að skip Sameinaða félagsins hafa tekið fullan farm í Höfn og látið vörur í Skotlandi mæta afgangi, þótt þau hafi vitað af þeim fyrir fram. Mun hér fara sem annars staðar, að sjálfstæði þessa eylands er ekki fyr borgið, en það hefir samgöngur á sjó í sinni eigin hendi.

Sami háttv. þm. (J. Ó.) lagði ríka áherzlu á það, að slík útgerð væri miklu dýrari og áhættumeiri, en ef félaginu væri veittur styrkur til ferðanna.

Hinum háttv. þm. sást þar yfir aðalatriði málsins, en hann hengdi hatt sinn á ýms smáatriði; færði heldur engar sönnur á mál sitt, Hann talaði þar af sínu viti, og var framburður hans spádómur og ekki annað. En það er gömul og gild regla, að ástæðulausar fullyrðingar þurfi ekki að hrekja með ástæðum. Þess þarf því ekki hér.

Eg hefi að vísu ekki neinar tölur til að tjalda hér, en þá reynslu höfum vér þó, að betra er að ráða sjálfur einhverju fyrirtæki, en styrkja það með fjárupphæð, er nemur meira en vöxtum af kaupupphæðinni (½ milj. kr.). Þetta mætti reikna út — hinn háttv. þm. gæti það sjálfsagt líka.

Hins vegar veit eg ekki, hvað söluhvatir Thorefélagsins koma oss við; hér er í rauninni ekki verið að tala um neitt Thorefélag — það er að eins fyrirtæki, er það getur gerst hluthafi í. (Hannes Hafstein: Hver segir það?) Hver segir það, sem eg er að segja — var hinn háttv. þm. að spyrja að því? Eg skil ekki vel þessa spurningu; vil því biðja hinn háttv. þm. að koma mér í réttan skilning. — Jæja, úr því að hann svarar engu til þessa, þá get eg leitt hjá mér að svara spurningu hans.

Nei, söluhvatir þessa félags koma oss ekkert við, efnahagur þess heldur ekki; vér tökumst enga skuldbinding á hendur gagnvart félaginu. Þetta félag hefir að eins beðist eftir þeim forgöngurétti að mega hafa 300 þús. kr. af þeim 800 þús. kr. hlutum, er hið nýja félag á að hafa, en vér getum fengið 500 þús. kr. hluti. Hitt hefir vakað fyrir mönnum, að hið nýja félag mundi kaupa skipastól »Thore«, ef það gengi í félagið.

Þetta mun nú vera viðsjárverðasta atriðið, og eg skal játa, að þótt eg nú treystist ekki til að gera þær umbætur á þessu ákvæði, er nauðsynlegar væru, þá mun eg koma fram með breyt.till. í þá átt við 2. umræðu, ef nefndin gerir það ekki; þessu get eg lýst yfir. Eg hafði búist við skýrari ákvæðum í þessu efni af hálfu nefndarinnar, en mun nú, eins og eg hefi sagt, koma að þeim breytingum við 2. umr., er þurfa þykir.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) komst svo að orði um tillögu mína, að hún væri ekkert annað en leikur. Eg get engan veginn fallist á þessi ummæli hins háttv. þm., en það skal eg játa, að skipakaupa atriðið er varlegt; það ríður auðvitað mikið á að búa þar svo vel um hnútana, að landssjóður bíði engan hnekki.

Og eg get tekið undir það með háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), ef þetta frumv. nær ekki fram að ganga, þá mun eg leggja til, að stofnað verði nýtt félag, og megi þar hver eiga hlut í, er vill og getur. Og þá vænti eg þess, að h. háttv. þm. hjálpi mér til að bera slíkt frumv. fram til sigurs, — að við getum þá orðið fyllilega samtaka.