26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Framsögumaður minni hlutans (Jóhannes Jóhannesson):

Eg skal ekki þreyta háttv. þingdeild með langri ræðu. Við 1. umr. þessa máls var því haldið fram af minni hlutanum í samgöngumálanefndinni o. fl., að málið væri ekki nægilega undirbúið. Ný sönnun fyrir því, að svo hafi verið, er það, að meiri hluti nefndarinnar hefir gerbreytt málinu við 2. umr., og enn hefir heyrst, að nýjar breyt. væru væntanlegar, ef það nær að ganga til 3. umr. Þetta sýnir ljóslega, hvað málinu er flaustrað af, og ef það næði nú að ganga gegnum þingið og verða að lögum, mundu menn fljótt komast að raun um, að þau væru stórgölluð.

Því verður ekki mótmælt, að fyrirtækið er stórt áhættuspil fyrir landssjóðinn, og því verður heldur ekki mótmælt, að fjárhagur landssjóðs er þannig, að hann mun tæplega þola — eða að minsta kosti — það er djarft að stofna til stórrar landssjóðs-útgerðar, sem eigi er gert ráð fyrir á fjárlögum né fjáraukalögum og eg vil segja, að það sé hreint og beint heimskulegt. Það er ekki hægt að búast við stórum tekjuafgangi til þess að bæta upp hallann, ef fyrirtækið hefir stórt tap eða tjón í för með sér, og það eru einmitt stórar líkur til þess að svo mundi reynast.

Nú liggja fyrir þinginu 2 tilboð frá Sameinaða félaginu. Tilboð þessi eru þann veg vaxinn, að þau eru aðgengileg fyrir þingið, og þau fullnægja öllum sanngjörnum kröfum. Þegar svo er komið, þá er engin ástæða til þess að fara að leggja út í jafnstóra óvissu og áhættu og lög þessi mundu hafa í för með sér. Það er satt, að frumv. lítur dálítið betur út á pappírnum, ef landið stofnar félag, en ef það fer að kaupa hluti í öðru félagi, sem eftir margra máli er langt frá því að vera traust.

En þrátt fyrir það, þótt frumv. sé skárra útlits nú en það var, þá álít eg það samt engu betra, því að ýmisleg tryggingarákvæði vanta nú, sem þá voru fyrst í frumv. Nú stendur í frv. að kaupa eigi 4 »hentug« skip í stað »nýleg skip« áður; nú á að sleppa mati skipanna o. s. frv. Frumv. líkist því meir Thore-tilboðinu, eins og það var upphaflega.

Ef tilboðinu er tekið og matinu slept, þá má stjórnin kaupa alla dalla Thorefélagsins, svo framarlega sem stjórn nýja félagsins álítur þau »hentug«.