22.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (2297)

75. mál, bygging jarða og ábúð

Framsögumaður (Pétur Jónsson):

Fyrst verð eg að beiðast afsökunar á því, að inn í frumv. hafa slæðst nokkurar ritvillur, og enn meira af meinlegum prentvillum. Í 3. gr. a. er of aukið þrem orðum: »af aðkeyptu efni« og eiga þau að falla burt. Í 1. gr. er »hækkun« fyrir »lækkun«. Í 3. gr. er »jarðhús« fyrir »jarðarhús«. Fleiri prentvillur eru enn, en þær raska ekki svo mikið meiningunni, að menn ráði ekki í hana.

Frumv. er komið frá landbúnaðarnefndinni, en ekki í þeim tilgangi, að það verði að lögum í þetta sinn, heldur til þess, að það verði tekið til íhugunar og umræðu. Það hefir lengi legið í loftinu, að breyta þyrfti lögunum um úttekt jarða frá 1884. Milliþinganefndinni í landbúnaðarmálum var ætlað, að taka þau til meðferðar, einkum ákvæði um réttindi leiguliða. En nefndinni þótti málið svo óárennilegt, að hún réðst ekki í það, að leggja til breytinga á lögunum sjálfum. Þar á móti kom hún með aðrar tillögur, sem ætlaðar voru til hagsbóta fyrir leiguliðana, svo sem um forkaupsrétt þeirra til ábýla sinna, um þjóðjarðasölu o. fl.

Efni frumv. þessa er eins og menn sjá: Í fyrsta lagi um endurgjaldsrétt leiguliða á jarðabótum þeim, sem eigi eru áskildar í byggingarbréfi. — Í öðru lagi um samskonar rétt viðvíkjandi húsabótum, og í þriðja lagi, er farið fram á, að leiguliða sé gerður kostur á því, að innleysa kúgildi fyrir aðra innstæðu jafngilda. Fyrir sumar jarðir eru kúgildi nú orðin mjög tilfinnanleg kvöð, þar sem þau eru mörg, og virðast hafa miður góð áhrif á efnahag leiguliða. Það er ósk nefndarinnar, að þingið taki öll þessi atriði til rækilegrar íhugunar, og greiði þannig fyrir þeim umbótum, sem ætlast er til að í þeim sé fólginn.