15.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

124. mál, dánarbú Jóns Sigurðssonar

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Eins og mönnum mun kunnugt, var á þingi 1875 veitt fé til þess að kaupa handrita- og bókasafn Jóns Sigurðssonar. Voru fengnir tveir hinir spökustu menn, þeir Vilhjálmur Finsen og Konráð Gíslason, til þess að meta safnið og fóru svo fram kaupin.

Þau hjón, Jón og kona hans, önduðust bæði seint á árinu 1879 og arfurinn eftir þau féll í Kaupmannahöfn.

Þó hafði Ingibjörg Einarsdóttir áður hún létist arfleitt Ísland að miklum hluta eigna sinna, en ekki gert það að einkaerfingja sínum. Þar áttu því og útarfar hlut í, og var búið framselt skiftaréttinum í Kaupmannahöfn.

Mér hefir verið svo sagt af áreiðanlegum manni — Tryggva bankastjóra Gunnarssyni — að hann hefði til þess vitað, að skiftarétturinn í Khöfn lét fara inn í híbýli Jóns Sigurðssonar og sópa úr öllum skúffum, því er þar fanst; hafi þaðan verið brott tekin ýms plögg, bréf og reikningar, er nam svo miklu, að það var flutt í 2—3 pokum.

Tryggvi Gunnarsson var um þessar mundir forseti Þjóðvinafélagsins og tók við því starfi af Jóni Sigurðssyni. Nú vantaði ýms plögg, er félaginu tilheyrðu og varð Tryggvi því að fara til skiftaréttarins og spyrjast þar fyrir.

Tókst honum með eftirgangsmunum að fá reikningsbók félagsins; annars var engum plöggum skilað.

Segi eg þetta ekki í því skyni, að mér komi til hugar að væna skiftaréttinn um nokkra óráðvendni í þessu efni, — því fer svo fjarri; þetta var ekki nema eðlilegt og mjög skiljanlegt af hálfu réttarins. En inn í þessi plögg gat hafa slæðst margt eigi að síður, sem var dánarbúinu eiginlega óviðkomandi til skifta.

Veit eg líka, að margir muni þeir hér í þingsalnum, er við þess konar hafa fengist og mun þeim þetta alt ljóst.

Sjálfur kannast eg fullvel við það, að það kemur afaroft fyrir, að í plöggum, sem til skiftaréttanna koma, er margt það, sem ekkert snertir dánarbúið, svo sem sendibréf og sitthvað fleira.

Ef enn fyndist eitthvað af því tagi í Khöfn, er stafar frá dánarbúi Jóns Sigurðssonar, þá ætti það helzt að vera, eftir því, sem nú hefir verið talið, í skjalasafni skiftaréttarins þar.

En nú munu menn spyrja, hvort landið geti gert tilkall til sendibréfa og því um líks, þó að það hafi keypt handrita- og bókasafn Jóns Sigurðssonar. Um það skal eg láta ótalað. En hitt er víst, að bréf Jóns Sigurðssonar (til hans) eru ekki nándanærri öll komin fram; hér er nú í safni hans að eins örlítið brot til af þeim. Má enginn ætla, að þau hafi ekki miklu fleiri verið, enda eru þau hin fáu, sem til eru hér, því nær eingöngu frá síðara hluta æfi hans. Hitt er og vart ætlanda um jafnhirðusaman mann og Jón Sigurðsson var, að bréfin hafi glatast hjá honum.

Að vísu veit eg ógerla, hvort erfingjar Jóns hafa tekið nokkuð af þeim til sín eða eigi. Þó mun eitthvað smávegis hafa lent hjá einum frænda hans, sem nú er látinn, af því, sem safninu tilheyrði, en það er að eins lítilvægt, enda að vísu að nokkru til skila komið.

Auk þessa hafa það sagt mér góðir menn og gagnkunnugir, að þeir vissu ýmsa þá hluti í eigu Jóns Sigurðssonar, er aldrei hafa komið fram. Svo hefir Sigurður L. Jónasson, er létst í fyrra í Kaupmannahöfn, gamall aldavinur Jóns Sigurðssonar, sagt mér, að Jón hefði geymt í skrifborði sínu safn af (rauðkrítar)myndum eftir Sæmund Hólm af nafngreindum íslenzkum mönnum, en ekkert hefir komið fram af þeim í safninu.

Sigurður var skilríkur maður og réttorður, og þessu vel kunnugur.

Árið 1905 var þessu efni hreyft af hálfu landsbókasafnsins og var Tryggva Gunnarssyni þá skrifað til og hann beðinn að gera grein fyrir afskiftum skiftaréttarins af dánarbúinu, að því, er honum væri kunnugt. En Tryggvi var þá sem jafnan önnum kafinn og kom svar hans ekki að því sinni; síðan hefir það gleymst og dregist og er ókomið enn.

Áður en tillaga þessi fór í prentsmiðjuna, sýndi eg Tryggva Gunnarssyni hana, til þess að ekki yrði sagt, að eg léti hann ganga duldan þessa máls, enda segi eg nú það eitt í þessu máli, er hann kveðst munu kannast vel við.

Það er engan veginn — eins og öllum heilvita mönnum gefur að skilja — ætlun mín að þýfga skiftaréttinn eða væna hann um neina vísvitandi óráðvendni. Það hefir einungis orðið fyrir rás viðburðanna, ef þar hafa orðið innligsa plögg, er heyra til dánarbúi Jóns Sigurðssonar.

Hitt er það sem fyrir mér vakir að nauðsyn beri til, að landstjórnin grenslist eftir því, hvar þau bréf, plögg eða skjöl hafa lent, er menn nú sakna þaðan, og eins, hvort nokkuð af þeim hafi lent hjá erfingjum Jóns hér, og þá helzt hér í Rvík. Hefir einn þeirra sagt, að til væru enn óuppslegnir kassar nokkrir úr dánarbúinu, og vissi hann ógerla hvað í þeim væri.

Allir munum vér sammála um það, að geyma beri minjar þess manns, en glata þeim eigi. Öllum oss mun sárt um þær. Væri því ekki nema vel til fallið, að hið opinbera léti sér ant um að halda því öllu saman, að því leyti sem það er ekki á óhultum stað. Að því miðar tillaga sú, sem hér liggur fyrir.