02.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

11. mál, fiskimat

Ráðherra (H. H.):

Eg er alveg samdóma skilningi nefndarinnar á 1. gr. frumvarpsins. Ákvæðið á alls ekki að ná til annars fiskjar en þess, sem ákveðinn er til Spánar eða Ítalíu. En um það, hver fiskur á þangað að fara, er auðvitað ekki hægt að fara eftir neinu öðru en þeim skjölum, sem fylgja farminum, svo að ákvæðið nær að eins til þess fiskjar, er farmskjölin segja að eigi að fara til þessara landa. Enda er auðvitað, að sá fiskur, sem seldur er héðan til Englands eða Noregs, og síðan kann að koma til Suðurlanda án framleiðsluvottorðs, getur ekki spilt fyrir markaði íslenzkra afurða þar. En tilgangurinn er að eins, að fiskur, sem seldur er í þessum löndum sem íslenzk vara, nái ekki að spilla markaðinum. Eg er því alveg samdóma háttvirtum 3. konungkjörna þingmanni.