24.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

135. mál, landbúnaðarmál

Jón Jónsson (N.-Múl.):

Eg er einn af flutnm. þessarar tillögu og vildi því með fám orðum leiða rök að því, að þörf er á nefnd í þetta mál.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) hefir reyndar að nokkru leyti tekið af mér ómakið. Eg vildi þó minnast nánara á ábúðarlögin. Stefnan á undanfarandi þingum hefir verið sú að hlynna að sjálfsábúðinni í landinu, en þetta gerist ekki á stuttum tíma. Leiguliðar á jörðum einstakra manna, eru, eftir því sem næst hefir verið komist, mikill hluti af bændum landsins. Lögin eru að ýmsu leyti úrelt og óheppileg. Þess vegna þarf að breyta þeim á þá leið, að gætt sé réttar allra hlutaðeigenda. Leiguliðarnir fá hvöt til þess að sitja vel jarðirnar, ef í lögunum eru skýr og einföld ákvæði um rétt þeirra gagnvart landsdrotnum. En það er afaráríðandi, að allir leggist á eitt að bæta og rækta jarðirnar.

Eg skal benda á ákvæði laganna um hús á jörðum. Þar stendur, að jörðu skuli fylgja nauðsynleg hús, þau er henni hafa áður fylgt. Enn fremur að skylt sé að halda uppi húsum þeim öllum, er þá voru, er ábúandi kom til jarðar og jörðu fylgja. Þetta eru slæm ákvæði, hindra að húsaskipun sé breytt til bóta og að jarðarhúsum sé fjölgað. Annaðhvort þarf að ákveða, hver hús skuli fylgja jörðu, svo hún sé viðunanlega húsuð, eða þá tryggja leiguliðum endurgjald fyrir þau hús, er þeir hafa bygt og nauðsynleg eru.

Þá eru ákvæði ábúðarlaganna um jarðabætur leiguliða dauður bókstafur. En það er ekki lítilsvert að hvetja leiguliða með því að ákveða þeim endurgjald að einhverju leyti fyrir unnar jarðabætur.

Enn má benda á úttekt jarða. Um það vanta ákveðnar reglur, svo sem um það, hvort taka skuli tillit til timburflutnings, veggjahleðslu o. fl.

Sinn er siður í ýmsum héruðum landsins með þetta.

Mér finst það hreint og beint hneysa fyrir þjóðina að búa undir þessum lögum, án þess að breyta þeim. Vil eg því mæla með að nefnd sé sett í málið.