24.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

136. mál, skattamál Íslands

Flutningsmaður (Ólafur Briem):

Áður en milliþinganefndin í skattamálum tók til starfa kom eg að máli við merkan mann, sem setið hefir á þingi áður, og kvaðst hann vilja leggja nefndinni 2 heilræði, annað það, að hafa sem lengstan undirbúningstíma og hitt það, að gera sem fæstar breytingar frá því, sem nú er. Nefndin fór samt ekki eftir þessu. Hún hraðaði málinu meira en tíðkast hefir um aðrar milliþinganefndir. Og í annan stað eru ýmsar af tillögum hennar djúptækar, svo að ekki er nema eðlilegt, að þær þurfi nákvæmrar athugunar, áður en þeim er ráðið til lykta. Málið hefir lítið verið rætt á þingmálafundum og lítið um það ritað í blöðunum. Þeir þingmálafundir, sem málið hafa tekið til meðferðar, hafa óskað þess, að því yrði ekki til lykta ráðið á þessu þingi, enda hefir og nefndin sjálf lagt til, að því yrði frestað til þingsins 1911. Raunar mætti taka aðalstefnu í málinu á þessu þingi og gæti það orðið því til fyrirgreiðslu síðar, enda var það tilætlunin, að á þessu þingi yrði skipuð sérstök nefnd í málið.

En með því að nefnd sú, sem kosin hefir verið til að íhuga frumvarp til laga um bráðabirgðahækkun á aðflutningsgjaldi, er svo fjölmenn og var kosin með sérstöku tilliti til skattamála landsins, þá er það tillaga mín, að þeirri nefnd verði falið á hendur að taka jafnframt til íhugunar tillögur milliþinganefndarinnar um skattamál Íslands.