17.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

12. mál, laun sóknarpresta

Ráðherra (H. H.):

Þegar frumv. um laun sóknarpresta var til síðustu umræðu í Nd. á síðasta alþingi, var samþykt breyt.till. um að gefa sextugum prestum, sem sitja í þeim prestaköllum, þar sem kostur er á að koma þegar á breytingum eftir hinum nýju prestakallaskipunarlögum þau hlunnindi, að mega kjósa um það, að fá laun sín eftir gömlu reglunum eða eftir nýju lögunum, jafnvel þó að þeir vilji ekki ganga að breytingunum. Aftur á móti ná þessi hlunnindi ekki til sextugra presta, sem sitja í prestaköllum, þar sem hin nýja skipun getur ekki komist á, þótt þeir fegnir vildu. Með öðrum orðum: Rétturinn til þess að verða hlunnindanna aðnjótandi er látinn vera kominn undir atvikum, sem hlutaðeigendum eru ósjálfráð, og getur það komið mjög ósanngjarnlega niður. Þetta er misrétti, sem hefir orðið af því, að breyt.till. um þetta kom mjög á áliðnu þingi, svo að háttv. þingm. hefir ekki gefist nægur tími á að átta sig á henni eða hugsa hana út í æsar, enda mun naumast hafa verið tími til þess að gera breytingu aftur þegar málið kom upp í Ed. aftur, ef það átti að geta gengið fram.

Nú hefir biskup borið fram þá till., að þessi hlunnindi næðu til allra sextugra presta. Það er enn frekari ástæða fyrir þingið að verða við þessari sanngjörnu kröfu, þar sem hún verður landsjóði útlátalítil. Biskup hefir skýrt svo frá, að í næstu fardögum verði ekki sextugir fleiri en 15 af öllum prestum á landinu. Af þeim mundu svo líklega 7 njóta góðs af breytingunni.

Eg skal svo leyfa mér að mæla með því að háttv. þingdeild taki máli þessu vel, og komi þessum ákvæðum laganna í samræmi.