01.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (2431)

137. mál, afnám eftirlauna

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Eg þarf ekki að mæla með þessari tillögu, því að hún mælir með sér sjálf, og kemur fram eftir óskum þingmálafundar hér í Reykjavík og þingmálafunda víðar um land. Á þingmálafundi hér heyrðist líka hreyft, að hækka bæri launin jafnframt því, sem eftirlaunin væri afnumin, en það var þó felt á fundinum í einu hljóði. Alt fyrir það tel eg þó, að það geti verið álitamál, hvort sum laun beri ekki að hækka að nokkru og jafna launin í heild sinni, og viðleitnin ætti að ganga í þá átt að gera meiri jöfnuð á launum embættismanna. Annars vona eg að hin háttv. deild taki tillögu þessari vel.