15.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

Umræður um kjörbréfin

Framsögumaður 2. kjördeildar (Kristján Jónsson):

Mér hefir verið falið á hendur að skýra frá starfi þessarar deildar. Hún hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að við flest þeirra kjörbréfa, sem hún hafði til meðferðar, sé ekkert að athuga. Aðfinslur hafa að vísu komið fram út af því, að ekki hafi verið nema eitt innsigli fyrir atkvæðakössum úr Skeggjastaðahreppi og Tunguhreppi í N.-Múlasýslu, og um sama hefir verið kvartað úr Borgarfirði eystra. Eftir rækilega íhugun komst kjördeildin að þeirri niðurstöðu, að eftir atvikum væri ekki ástæða til annars en að taka þessar kosningar gildar.

Við önnur kjörbréf, sem kjördeildin hafði til meðferðar, er ekkert að athuga, nema kjörbréf þm. Seyðisfjarðarkaupst. (Valtýs Guðmundssonar).

Um kosningu þessa þm. hefir komið fram kæra frá keppinaut hans, Birni presti Þorlákssyni. Í henni stendur svo, að eftir kosningaskjölunum sé Valtýr Guðmundsson kosinn með 57 atkv., en kærandinn (B. Þ.) hafi fengið 56. Deildin hefir fengið seðla þá, sem ágreiningur er um, til skoðunar, og skal eg nú skýra frá niðurstöðu hennar.

Þess er þá fyrst að geta, að af fjórum kjörseðlum, er kjörstj. taldi gilda, en umb.m. síra Björns mótmælti, álítur deildin einn ógildan, en hinum þrem ekki ástæða til að hrinda, eftir þeirri venju, sem fylgt hefir verið víðast hvar. Við þetta tekst eitt atkv. frá Valtý Guðmundssyni. Þá er enn einn seðill Valtýs, sem kjörstjórnin taldi ógildan, en umb.m. hans vildi telja gildan. Kjördeildin leggur til, að úrskurður kjörstjórnar um hann standi.

Þá er enn einn kjörseðill, sem kjörstjórn taldi gildan, en umb.m. Valtýs ógildan. Eftir atvikum verður deildin að leggja til, að hann sé talinn ógildur.

Niðurstaða kjördeildarinnar verður því sú, að báðir missa eitt atkv. hvor og úrslit kosninganna verða hin sömu sem áður.

Eg skýri hér frá Því, sem deildin hefir gert í málinu. Þar kom það til tals að fresta úrskurði um kosninguna og skipa sérstaka nefnd til að íhuga hana, en það varð ekki ofan á. Það er því tillaga deildarinnar að kosning Valtýs Guðmundssonar verði tekin gild.