18.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

Ferðakostnaðarreikningar

Hannes Þorsteinsson:

Mér dettur ekki í hug að fara að munnhöggvast við háttv. 6. kgk. þm. út af reikningi dr. Valtýs, og neita því algjörlega, að eg hafi farið nokkrum vansæmandi orðum um dr. Valtý persónulega, þótt eg gæfi í skyn, að landið hefði getað verið án hans í pólitíkinni. Það sem vakti fyrir mér var það, að eg vildi ekki taka upp á mig neina ábyrgð í þessu máli um ávísun reikningsins, nema því að eins, að málinu sé vísað til nefndar. Get heldur ekki skilið, að dr. Valtýr sé í þeirri fjárþröng, að honum bráðliggi svo á þessum peningum, að hann geti ómögulega beðið úrskurðar ferðakostnaðarnefndarinnar. En eg skal lýsa því yfir, að án þess ávísa eg reikningnum ekki.

Annars ber reikningurinn það bezt með sér, hversu sanngjarn hann er.