11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

96. mál, þjóðmenjasafn Íslands

Framsögumaður meiri hlutans (Jón Þorkelsson):

Nefndin í máli þessu hefir klofnað. Minni hlutinn vill ekki sinna þessu litla fjárframlagi, sem farið er fram á, hvorki til sérstaks aðstoðarmanns, né launahækkun til fornmenjasafnsvarðarins sjálfs. Minni hl. (háttv. 1. þm. Húnv. H. G.) sér ekki neina ástæðu til þess, að auka gæzlumönnum við safnið, og færir meðal annars, sem ástæðu fyrir máli sínu, að ef nokkur nauðsyn hefði verið á þessu, þá hefði stjórnin tekið það upp sjálf á fjárlagafrumvarp sitt. En þetta virðist vera bygt á því, að háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) er ekki nægilega kunnugur því, hvernig á hefir staðið. Mál þetta gat als ekki verið komið fram, þegar stjórnin bjó undir fjárlagafrumv. sitt. Safnið var þá enn ekki flutt í hið nýja húsnæði í safnahúsinu, og því enn óséð, hvers mundi við þurfa. En nú er það komið í ljós, að þar þarf miklu fleiri menn til gæzlu, en þurfti á gamla staðnum. Annars skal eg ekki eyða mörgum orðum til að sýna fram á þá þörf. Þjóðmenjasafnsvörðurinn hefir sýnt þingmönnum sjálfum húsrúmið, svo að þeir hafa sjálfir hlotið að sjá, hve afar örðugt — eða réttara sagt — ómögulegt það er, að einn maður hafi gát á öllu safninu, þegar það er sýnt. Eg hafði því upphaflega til ætlast, að þingið veitti 800 kr. til sérstaks aðstoðarmanns, og svo 1000 kr., sem launahækkun til safnvarðar, en til þess að ná þó einhverju samkomulagi, þá hef eg þó látið kröfuna um fastan aðstoðarmann falla. En því fastar held eg fram, að laun fornmenjasafnsvarðarins verði hækkuð um 1000 krónur. Hann þarf öðru hvoru að hafa fastan aðstoðarmann við safnið, og á verðinum liggur sú lagaskylda, samkvæmt fornmenjalögunum, að ferðast á sumrum um landið til að safna fornmenjum, skrásetja þær og friðlýsa þeim, en á þeim tíma er sem mest aðsókn að safninu, svo að safnið verður að vera opið að minsta kosti 2 stundir daglega. En til þess þarf mikla aðstoð og dýra, sem safnsvörður verður að borga. — Og þegar tekið er tillit til þessa, eru þessar 2800 kr., sem hann eftir þessu frumv. á að fá, sannarlega ekki of mikið. Annars þarf eg ekki að vera að mæla svo fast með þessu. — Eg vona, að hinir háttv. deildarmenn, sem eru málinu eins kunnir, verði því hlyntir.