20.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

16. mál, aðflutningsbann

Júlíus Havsteen:

Mig furðaði satt að segja stórlega á orðum háttv. þm. Ak. þegar hann talaði um góðan undirbúning á þessu máli. Það reis upp í Nd. á þingi 1905 áskorun til stjórnarinnar um að láta fara fram almenna atkvæðagreiðslu um þetta mál, en Ed. hafði ekkert með það að gera. Eg get álasað stjórninni fyrir það, að hún skyldi hlaupa beint til og láta atkvæðagreiðsluna fara fram, án þess að Ed. væri spurð, og það hefði mátt gera á þingi 1907. Þar að auki hafa Good-Templarar ekki fengið þann atkvæðafjölda, sem ætlast var til (2/3), og sum héruð hafa beinlínis verið á móti henni.

Annars er þetta frv. alveg fult af göllum. Eg skal að eins benda á ákvæðið um altarissakramentið. Þar er beinlínis verið að breyta trúarbrögðunum, því að »saft« verður aldrei vín, hvað sem biskup segir. En aftur á móti er kaþólskum prestum leyft að nota vín í sínum embættisverkum.

Eftir þessu frv. eru menn líka settir beint undir lögreglueftirlit, og kalla eg það lítið frelsi. Ef ekki er ástæða að setja nefnd í þetta mál, þá er aldrei ástæða til þess. Eg skal þess vegna leyfa mér að stinga upp á 5 manna nefnd að lokinni umræðu.