14.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

29. mál, námskeið verslunarmanna

Lárus H. Bjarnason :

Eg álít allar breytingartillögur nefndarinnar til bóta. Þær eru allar í mannúðaráttina. En eg vildi að eins skjóta því til nefndarinnar, hvort ekki væri ástæða til að gera enn nokkrar breytingar á frumvarpinu. Væri ekki rétt, að miða aldurstakmarkið í 1. gr. við 16 ár í stað 18 ár? Hér er um persónulega ráðstöfun að ræða, er hver persónulega myndugur maður ætti að geta gert upp á eigin spítur. En persónulegur myndugleiki verður að teljast byrja með 16 ára aldri hér á landi, og því finst mér réttara að miða við þann aldur, enda þó að 18 ára aldur útheimtist nú eftir iðnaðarnámslögunum frá 16. sept. 1893 til að ráða sig til slíks náms.

Þá er ákvæðið í 7. gr.: »Að jafnaði má verzlunarstjórnandi ekki láta nemandann vinna frá kl. 9 á kvöldin til kl. 6 á morgnana«. Mér líkar ekki þetta »að jafnaði«. Vildi heldur að vinna á þessum tíma væri bönnuð, »nema brýna nauðsyn bæri til«.

8. gr. fyrirskipar einnar viku sumarfrí. Úr því að gert er ráð fyrir sumarfríi á annað borð, finst mér það ekki mega vera minna en hálfur mánuður. Það mundi verða tíðast, að nemendurnir leituðu til sveitanna í sumarfríi sínu og þá er ein vika alt of lítið; hún mundi oft ganga mest í ferðina fram og aftur.

Enn vil eg benda á ákvæði 10. gr. um það, er nemandi veikist, í sambandi við sams konar ákvæði í 27. gr. fátækralaganna frá 1905 og í lögum 16. sept. 1893. Í þessum lögum er skyldan til að ala önn fyrir sjúklingnum bundin því skilyrði, að sjúklingurinn sé á heimili húsbónda og helzt þá í 6 mánuði. En í frv. því, sem hér er um að ræða, er þessi skylda engu dvalarskilyrði bundin, en nær aftur á móti ekki lengra en til 6 vikna. Það er víst vafasamt, hvort betra er, og þá finst mér réttast, að hafa þessi ákvæði í samræmi hvert við annað.

Í 12. gr. held eg, að »verzlunareigandi« ætti að koma í stað »verzlunarstjórnandi«. Það er engin ástæða til, að námssamningurinn skuli vera ógildur, þó að verzlunarstjórnandi deyi, ef verzlunin heldur áfram samt sem áður.

Loks hefi eg það út á frumvarpið að setja, að það vantar öll niðurlagsákvæði. Það er ekkert ákveðið um það, hvað gera skuli, ef lögin eru brotin. Mörg af lögum vorum eru pappírslög og sízt ástæða til að fjölga þeim. En það er því meiri hætta á, að þessi lög bætist við þeirra tölu, ef öll niðurlagsákvæði vantar.

Eg vil biðja hina háttv. nefnd að athuga þetta og þá getur hún komið með breytingartillögur til 3. umr., ef henni sýnist ástæða til.