08.05.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Eggert Pálsson:

Eg hefi leyft mér ásamt tveim háttv. þm. að koma hér fram með dálitla breyt.till. við 22. gr. frv. 10. lið. Fer breyt.till. að eins fram á það, að lánið, sem sýslumanni Rangæinga, Björgvin Vigfússyni, á að veitast til þess að koma sér upp embættisbústað, verði 6000 kr. í stað 4000 kr. Eins og háttv. þm. kannast við, var lán þetta upphaflega sett 12000 kr. af háttv. Nd. og það með mjög hagkvæmum lánskjörum, sem sé 6% á 28 árum. Þessu breytti háttv. Ed. í hinni fyrstu meðferð sinni á frv., svo að lánið skyldi að eins vera 4 þús. kr. með 4½% vöxtu og afborgast á 25 árum. Og þegar svo Nd. fekk frv. aftur til meðferðar, lét hún vaxta- og afborgunarskilyrðin, sem Ed. hafði sett, halda sér, en færði að eins upphæðina upp í 6 þús. kr., sem að eins er helmingur þeirrar upphæðar, sem hún sjálf hafði upphaflega sett. En samt sem áður, þótt svona vægilega væri farið í frá hálfu Nd. gagnvart Ed., þá hefir háttv. Ed. þó þóknast að lækka það niður í 4000 kr. enn á ný. Til þess að gæta áfram allrar sanngirni og tilhliðrunarsemi í þessu máli, þá hefi eg ekki farið fram á meira en að lán þetta verði aftur hækkað upp í 6000 kr., eins og stóð í frv. þá er það síðast fór frá Nd. Það gefur nú hverjum einum að skilja, að þessi upphæð muni hvergi nærri hrökkva til hjá viðkomandi sýslumanni bæði til þess að kaupa ábýlisjörð og byggja hana upp bæði að íbúðar- og fénaðarhúsum. Til þess mundi alls ekki hafa af veitt þeim 12 þús. kr., sem upphaflega var stungið upp á. En þar sem engin tiltök virðast til þess, að fá meiri hluta hins háttv. alþingis til þess að samþykkja 12 þús. kr. lánveitingu í þessu skyni, sem eg hefði helzt kosið, þá hlýt eg þó að kjósa það heldur en ekki, að breyt.till. verði samþykt og láninu þar með þokað upp í 6 þús. úr 4 þús. kr., með því að það verður að álítast talsvert hægra fyrir hlutaðeigandi sýslumann að bæta við það því sem á vantar, heldur en ef lægri upphæðin er látin halda sér. Og þar sem nú aldrei hefir orðið neinn ágreiningur um það, hvort lán þetta ætti að veita eða ekki, heldur að eins um upphæðina sjálfa, hversu há hún skyldi vera, þá vænti eg þess, að hið háttv. sameinaða þing taki vel þessari br.till. okkar og veiti henni samþykki sitt.