05.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

55. mál, dánarskýrslur

Kristinn Daníelsson:

Mér þykir vænt að heyra hversu veik andmæli hafa komið fram á móti br.till. mínum.

Eg skal stuttlega drepa á það, að háttv. 3. kgk. þm. virðist ekki hafa skilið mig rétt. Eg sagði ekki að skýrslur presta mundu verða jafn fullnægjandi og skýrslur lækna. Eg sagði að fyrir þær sóknir, þar sem samkvæmt frumv. er ætlast til að læknar gefi vottorðin, gæti komið jafngóð vissa með því móti, að prestar semdu skýrslurnar og læknar leiðréttu síðan. Því eins og eg hefi áður tekið fram, munu læknar yfirleitt vita um alla mikilsvarðandi sjúkdóma í héruðum sínum, og þá ekki sízt í þeim sóknum, er þeir sitja í.

Auðvitað væri almenn líkskoðun það æskilegasta, og væri langt frá mér að hafa á móti henni, ef henni yrði við komið. En þetta frv. fer alls ekki fram á almenna líkskoðun.

Framsögumaður meiri hl. nefndarinnar fann það að breyt.till. mínum, að eg gerði of mikið úr óþægindum þeim, er líkskoðun sú, er frumv. fer fram á, mundi hafa í för með sér. Eg er þessu kunnugri en háttv. framsögumaður, og veit að víða mundi leiða af henni allmikil óþægindi fyrir presta og aðstandendur hins látna. En auðvitað mundi eg ekki láta mér þessi óþægindi í augum vaxa, ef nokkuð verulegt ynnist annars með frumv.