13.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

64. mál, bókasafn vesturlands

Sigurður Stefánsson :

Eg ætlaði að stilla svo orðum mínum, að þau gæfu ekki ástæða til slíkra stóryrða sem þeirra, er háttv. 5. kgk. þm. hefir látið sér um munn fara. En eg ætla að strika yfir öll hans stóru orð. Þó hann líki mér við stigamann og annað því líkt, þá standa allar ástæður mínar fyrir frumvarpinu jafn óhaggaðar fyrir því.

Háttv. þingm. sagði að safnið væri ekki opinber eign. Er það þá eign einstakra? (Lárus H. Bjarnason: Eign sýslnanna). Eg hygg að það sé rétt,: að kalla það opinbera eign. Safnið er eign alls Vesturlands eða 8 sýslufélaga, og undir opinberu eftirliti. Að kalla slíkt einstakra eign er, ef ekki rangt, þá að minsta kosti mjög villandi.

Háttv. þingm. var og að brýna mig á því, að eg mætti ekki á amtsráðsfundunum 1906 og 1907. Það var rétt að eg mætti ekki, en það kom af því að mér var það ómögulegt. Það atvikaðist nú svo allan þann tíma sem háttv. 5. kgk. þm. var forseti amtsráðsins, að fundum amtsráðsins var svo hagað, að mér var ómögulegt að mæta, nema það kæmi í stórkostlegan bága við embætti mitt.

Hann sagði enn fremur að það væri ránskapur og brot á stjórnarskrá að flytja safnið til Ísafjarðar. Eg hefði ekki haldið að forstöðumaður lagaskólans léti sér slíkt um munn fara. Hann hlýtur að hafa lesið frumvarpið eins og einn ónefndur herra les biblíuna. Það er hvergi farið fram á að raska neitt eignarréttinum á þessu safni. Það er þvert á móti sagt berum orðum að hið sameinaða safn sé eign Vestfirðingafjórðungs og heiti Bókasafn Vesturlands. En að kalla slíkt brot á eignarrétti og stjórnarskrá, þó að safnið sé flutt á hentugri stað, er ein hin argasta lögvilla.

Hvað það snertir að eg hafi á þingi 1907 sannfærst um að ályktun amtsráðsfundar um safnið væri réttmæt og gild, þá er þar um að segja, að það eru hin mestu fjarmæli; með allri virðingu fyrir réttlæti hins háttv. 5 kgk. þm., þá er eg viss um að fyrverandi forseti amtsráðsins hefði ekki látið svo varhugaverða ályktun ná fram að ganga. Háttv. þm. hefir ekki hrakið með einu orði það sem eg sagði, að amtsbúum væri gert hægara fyrir að nota safnið á Ísafirði en í Stykkishólmi. Og því verð eg að álíta að þessi ákvæði amtsráðsins, að safnið skuli jafnan vera geymt í Stykkishólmi, séu, ef ekki ólögmæt, þá mjög ranglát. Allar þær ástæður, sem áður fyr mæltu með því að hafa safnið í Stykkishólmi, eru gjörsamlega horfnar.

Á þinginu 1907 hafði eg ekkert frumvarp að flytja um flutning safnsins. Það var að eins breytingartillaga við fjárlögin sem þá var um að ræða, og því sá eg mér ekki fært að fara lengra í það skifti. En eg sannfærðist enganveginn um réttmæti eða sanngirni amtsráðssamþyktarinnar. — Að alþingi verði sótt fyrir dómstólunum um sínar gerðir, er sú endileysa að eg hefi aldrei heyrt slíka.

Háttv. þm. kallaði Ísafjörð Þorskafjörð. Slík uppnefni læt eg mér í léttu rúmi liggja. Eg hygg að enginn sá þorskur sé til í Ísafirði, að honum hefði dottið i hug að flytja aðra eins ræðu og þá sem háttv. 5. kgk. þm. lét sér sæma að bera fram. Annars sýnist það nóg, að við köstum hnútum hvor til annars, og óþarft að vera með slettur til fjarverandi manna og árásir á mannorð eða mannvit kjósenda okkar.

Hann sagði enn fremur að eg hefði verið að gera honum getsakir um það, að hann mundi hafa hnuplað frá safninu. Það hefir mér alls ekki komið til hugar; því eg veit til þess að hann lagði einmitt kapp á að auðga safnið að dýrum og fágætum bókum, og það jafnvel svo mjög, að stundum var ástæða að draga nokkuð úr ákafanum. T. d. var honum ant um að útvega safninu ýms merkileg, hávísindaleg »juridisk« ritverk á þýzku og dönsku máli, svo að amtsráðið varð að taka í taumana með því að það áleit slík rit ekki við alþýðu hæfi. Mér gat því ekki komið til hugar að gera honum neinar slíkar getsakir.