15.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

82. mál, póstafgreiðsla í Vík

Flutningsm. (Gunnar Ólafsson):

Hæstv. ráðherra sagði, að menn ættu að snúa sér til umboðsvaldsins. Það hefir verið kvartað yfir þessu ástandi. Eg veit ekki hvort kvartað hefir verið beint til stjórnarráðsins, en mér er kunnugt um, að bréfhirðingarmaðurinn hefir kvartað til póststjórnar. Sömuleiðis minnir mig að síðasti sýslufundur hafi skorað á stjórnina að bæta úr þessu ástandi.

Eg get ekki skilið að það sé óheppileg leið, að snúa sér til þingsins. Eg býst við að landstjórnin hlýði ályktunum þingsins, geri sem henni er sagt. Það getur varla verið skakkara að fara þessa leið, en að snúa sér til fjárlaganefndarinnar. Eg sé því enga ástæðu til að fella tillöguna af þessum ástæðum.