04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Magnús Blöndahl:

Eg á hér brt. á þgskj. 902, sem eg vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um. Breyt.till. er við 22. gr. og fer fram á það, að feldir séu burtu flestir liðir greinarinnar, bæði lán til sýslufélaga, bæjarfélaga og einstakra manna. Það er ekki langt síðan að fleiri háttv. þingm. hér í deildinni höfðu margt við það að athuga, að seinasta stjórn og stjórnin þar á undan hefði bundið alt of mikið eignir viðlagasjóðs með lánum, svo að jafnvel til vandræða horfði. Það lítur ekki út fyrir, að háttv. þm. gæti þess, að þeir eru sjálfir sök í þessu, með því á hverju þingi að samþykkja lánbeiðnir, sem nema tugum og jafnvel hundruðum þúsunda kr. Þegar búið er að setja slíkar lánveitingar inn á fjárlögin, þá tjáir ekki að sakast um það, þó að stjórnin fari eftir vilja þingsins í þessu efni og láni út það fé, sem handbært kann að vera á hinum ýmsu tímum. Eg get ekki verið samdóma háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) um 10. lið, sem hann virðist líta sérstökum velvildaraugum á, af því að það sé til prívatmanns, sem ekki hafi aðgang að bönkunum. Hann kvað það sjálfsagt, að bankarnir hlypu undir bagga með sveita- og bæjarfélögum, en um einstaka menn væri öðru máli að gegna. Eg get ekki skilið, að þetta sé rétt hjá háttv. þm., ef gert er ráð fyrir að fyrirtækið sé svo vaxið, að það sé eins arðvænlegt og hann hefir gefið í skyn, og ef það er stofnað með nokkurri fyrirhyggju. Eg veit ekki til hvers bankarnir eru stofnaðir ef ekki einmitt til að hjálpa slíkum fyrirtækjum, og eg þykist mega fullyrða, að það stendur einmitt í »Statutum« þeirra, að þeir séu skyldir að styrkja þau fyrirtæki, sem arðvænleg eru, ef tryggingin er góð og til þeirra er stofnað með skynsemi. Eg get tekið undir það með háttv. þm. hvað þetta fyrirtæki snertir, að það gæti vafalaust verið mjög arðvænlegt, ef það væri rekið hyggilega og að öllu vel undir búið, en úr örðugleikunum við að læra niðursuðuaðferðina fanst mér háttv. þm. gera nokkuð mikið. Þess er líka að gæta, að þó að maðurinn, sem hér á hlut að máli hafi sjálfur ekki getað aflað sér nægrar þekkingar í þeirri grein, þá hygg eg ekki, að honum hefði þurft að verða skotaskuld úr að útvega sér fullfæran mann til starfsins frá útlöndum, og hann hefði þannig getað komist hjá ýmsum óhöppum. Eg lít svo á, að það sé tæplega forsvaranlegt að hrúga lánum á lán ofan, þegar alt af heyrist hljómurinn um það úr öllum áttum, hvað fjárhagur landssjóðs sé þröngur, og jafnvel kveðið svo ramt að, að menn hafa haft á orði, að lán þyrfti að taka til þess að landssjóður gæti staðið í skilum með dagleg útgjöld. Það hefir nýlega verið afgreitt héðan úr deildinni frv. um ½ milj. kr. lántökuheimild fyrir landssjóð. Standi nú öll þessi lán í 22. gr. óbreytt og stjórnin neyðist til að nota lántökuheimildina, þá er eg hræddur um, að svo hart verði gengið að henni af einstöku mönnum og félögum, að hún sjái sér ekki annað fært en að uppfylla eitthvað af þessum lánspóstum 22. gr., en það var þó sannarlega ekki meiningin með lánsheimildarfrumv. Eg get heldur ekki annað séð, en að það ætti að vera auðgert fyrir einstaka menn og félög að fá lán hjá bönkunum, ef góð trygging kemur í móti; sé tryggingin aftur á móti ekki góð, tel eg það óforsvaranlegt að stuðla að því á nokkurn hátt, að slík lán séu veitt úr landssjóði. Raunar er það satt, að vextir af lánum þeim, sem landssjóður veitir, eru nokkuð lægri, en flestar upphæðirnar, nema 2, eru svo lágar, að vaxtamunurinn kemur varla til greina. Að hinu leytinu virðist það vera leikur, að vera eins og nú stendur að samþykkja allar þessar lánbeiðnir. Hæstv. ráðh.(Kr.J.) sagði fyrir skömmu, að þær væru þýðingarlausar, því að ekkert fé væri fyrir hendi til þess að sinna þeim. Til hvers er þá verið að leika þennan leik, sem ekkert getur orðið annað en eyðsla á tíma þingsins?

Eg skal að svo stöddu ekki verða fjölorðari um þessa brt., en minnast fám orðum á brt. mína á þgskj. 901, sem fer fram á það, að Guðjóni Samúelssyni verði veittar 400 kr. hvort árið til þess að lúka námi við fjöllistaskólann í Khöfn. Eg hafði áður komið fram með till. sama efnis, sem fór fram á nokkuð hærri styrk, en hún fann ekki náð fyrir augum þessarar háttv. deildar. Sama till. kom líka fram í háttv. Ed., en fann heldur ekki náð þar, þó að sú háttv. deild hafi sett ýmsa pósta inn á fjárlögin, sem mér virðast ekki hafa haft við meiri rök að styðjast en þessi tillaga. Eg hefi fyr tekið það fram, að landið á að eins einn mann í þessari grein, sem lauk þó aldrei fullnaðarprófi (Rögnvaldur húsameistari Ólafsson), en við vitum allir, hvernig hans heilsu er varið, þótt vonandi sé að hún batni. En hún er því miður svo nú, að hann getur lítið eða ekkert gefið sig við störfum. Við höfum því engan mann, sem fær sé að leiðbeina okkur í þessari grein, sem er þó ekki síður brýn nauðsyn á en í mörgu öðru. Eg vona því, að háttv. deild við nánari íhugun sýni þann velvilja að samþykkja þessa till., sem bæði er hógvær og sanngjörn. Auðvitað eru ýmsir aðrir póstar, sem þörf væri að minnast á, en eg skal þó ekki þreyta háttv. deild á því, nema mér gefist tilefni til þess við umræður þær, sem á eftir koma.