01.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Hjörleifsson:

Eg vildi að eins segja örfá orð í tilefni af breytingartillögum nefndarinnar á þingskjali 820, þar sem farið er fram á að veita prestinum á Breiðabólstaðarprestakalli um 300 krónur til jarðabótavinnu.

Eftir þeim skýrslum, sem liggja fyrir nefndinni, má sjá að presturinn hefir ekki unnið lítið að jarðabótum, og mætti því teljast góðs maklegur.

Hitt er annað mál, að það er varasamt að komast inn á þessa braut, og þar að auk er þetta gjald alt of hátt.

Þessar jarðabætur eru yfir höfuð styrktar af landsfé með almennum jarðabótastyrk, og líklegt að hann gæti fengið styrk úr ræktunarsjóðnum einnig, ef mikið væri unnið. Hér á því að hrúga styrk á styrk ofan.

Það er sannarlega alt of mikið og dýrt fyrir landið að kaupa svo jarðabætur af embættismönnum sínum, og þegar einn maður er tekinn út úr, geta aðrir komið og beðið um hið sama, og sumir hverjir með eins miklum rétti.

Hann hefir minst á það í umsókn sinni, að vafasamt sé, hvort hann geti haft full not af jarðabótunum í sinni tíð.

Hann er ungur enn og ef að sköpum fer, þá getur hann á þeim tíma, sem hann á enn eftir að lifa þar, fengið jarðabótina margfaldlega borgaða, með því að jörðin gefur meira af sér.

Þekt hefi eg prest, sem kominn var yfir sjötugt og vann samt að jarðabótum jafnkappsamlega og áður, án þess að hann færi fram á nokkurn landsjóðsstyrk til þess.

Eg vil að endingu benda á, að hér er um það að ræða að komast inn á hættulega fjármálabraut.