27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Pétur Jónsson:

Þó að við höfum allir skrifað undir nefndarálit þetta, þá kemur það ekki til af því, að við séum allir sammála um alla liði. Eg skal t. d. nefna skrifstofufé vegaverkfræðingsins. Nefndin var ekki sammála um þá yfirlýsingu, og eg hygg að það komi af því, að nefndarm. hafi ekki kynt sér nógu vel, hvernig því er varið með þessa fjárveitingu. Þetta skrifstofufé er alveg nauðsynlegt, og eftir reynslunni ekki nógu hátt tiltekið í frumv., samkv. þeim upplýsingum, sem eg hefi fengið. Það er að vísu ekkert nýtt, að ýmsir embættismenn þurfi að taka af sínum eigin launum til skrifstofukostnaðar, en það gæti svo farið, að ef þessi verkfræðingur, sem við höfum nú, þyrfti að gera það, að þá vildi hann ekki hafa þann starfa lengur, og það væri skaði.

Þá eru nú loftskeytin til Vestm.eyja. Því er nú svo varið, að ekki einu sinni meirihl. fjárlagan. samþykti þá fjárveitingu. Svo stóð á þegar um þetta var rætt, að einn nefndarm. var ekki staddur hér í Rvík, einn greiddi ekki atkv. og tveir voru á móti þessum lið brtill. Þeir voru því ekki nema þrír, sem samþyktu hann, og er þetta ónákvæmni í nefndarálitinu. Annars ætla eg nú ekki að vera að þræta um þetta mál lengur; eg veit, að sá flokkur, sem ræður hér í neðri deild, getur ráðið því að settar séu upp loftskeytastöðvar þar og þar, ef peningarnir eru að eins fyrir hendi, og er ekki til neins að stappa út af því. Eg sé líka að hann ætlar að gera það, hvort sem Vestm.eyingum líkar betur eða ver. En eg vil að eins mælast til þess, að þetta verði ekki sett inn í fjáraukalögin, heldur frekar fjárlögin, úr því að Vestm.eyingar vilja það ekki, því að hvað liggur á því? Ekki liggur á því vegna eyjaskeggja, sem ekki vilja sjá það, og ekki heldur vegna skipa, því að engin íslenzk skip hafa loftskeytatæki, og jafnvel ekki útlend heldur, nema ef til vill einstöku »trollarar« útlendir. En með því að draga þetta og setja það t. d. inn á fjárlögin síðara árið, er það unnið, að þá fær málið undirbúning. Hér liggur nú fyrir eitt ítarlegt tilboð, sem maður er sendur hingað með frá Marconi-félaginu. Í öðru lagi er komið annað tilboð frá frönsku félagi, en þar vantar aðila að semja við um breytingar o. s. frv, og eru þó líkur til, að það tilboð yrði jafnvel ódýrara en tilboð Marconis. Þá væri og ekki óhugsandi að semja við Poulsens félagið í Danmörku, og hygg eg að ekki væri óráð að komast í kynni við það, því að eftir því sem mér skilst, hefir Poulsen fundið upp afbrigði í loftskeytaaðferðinni, sem eru þó nokkurs virði. Stjórnin þyrfti því að fá tíma til þess að átta sig og rannsaka þetta mál, og loks að fá dóm óvilhallra »fagmanna« um það, hvað ráðlegast sé. Nú sem stendur höfum vér engan við hendina, nema þennan eina mann, og án þess að væna hann annars en góðs, verðum vér þó að játa, að hann er ekki annað en »agent« fyrir tilboð það, er hann flytur, og alþingi getur því ekki bygt dóm sinn á því, hverju hann heldur fram, því að sem umboðsmaður þessa félags hefir hann ekki leyfi til þess, að dæma öðrum en því í hag, og getur því eigi dæmt um annara tilboð sem óhlutdrægur maður. Þetta ætti nú að nægja, en enn á eg eftir eina ástæðu fyrir því, að fresta þessu, og hún er sú, að landssjóður er óneitanlega í peningakröggum. Það getur verið, að þetta skáni á næsta fjárhagstímabili, en eins og nú stendur er féð bundið í viðlagasj. og eins og kunnugt er koma flestöll útgjöld landssjóðs til útborgunar löngu áður en tekjurnar koma inn. Hann verður því annaðhvort að hafa peningaforða að grípa til, eða þá að skulda stórfé einlægt á hlaupareikningi við ríkissjóðinn danska, eða í bönkunum hér, og taka þannig fé frá annari starfsemi, og skil eg ekki í Sjálfstæðismönnum, að þeir skuli vilja hleypa landssjóði í skuldir við ríkissjóð Dana að óþörfu.

Eg sé að hér er komin fram till. um að fella burt fjárveitingu, sem samþykt var fyrir skemstu hér í deildinni með 19 atkv., en það er fjárveitingin til háskólans. Eg þykist vita, að það sé fjárhagsástandið eitt, sem þessu veldur, því að þegar fjárlögin komu til skjalanna brá svo við, að sumir, sem áður höfðu verið ákafastir, urðu nú svo ragir við þennan kostnað, að þeir tíma ekki, eða sjá sér ekki fært annað en fresta honum, sjálfsagt af því, að þeir sjá ekki fram á, að landssjóður hafi ráð á því í bráðina að leggja fram féð. En þetta yrði nú samt aldrei nema örstuttur frestur, úr því að háskólinn er kominn í lög. Ef vér nú spöruðum loftskeytaféð í 2 ár, þá væri það nóg til þess, að vér gætum komið upp háskólanum á afmæli Jóns Sigurðssonar. Eg veit að þetta væri enginn sparnaður nema rétt í bili, en sama má segja um féð til háskólans. Hvort heldur sem felt er, þá er það sparnaður — í bili, og þá vil eg heldur leggja til að fella loftskeytin, sem enginn vill, en taka háskólann, sem allir vilja.