25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

142. mál, landsreikningurinn 1908-1909

Bjarni Jónsson:

Eg hefi setið hér um stund og undrast mælsku háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.). Út af ummælum hans skal eg geta þess, að svo var ætlast til á síðasta þingi hér í Nd., að viðskiftaráðunautarnir væru tveir — hefði hver um sig, bæði í laun og ferðakostnað 10 þús. kr. á ári — en í Ed. var þessi fjárveiting sett niður í 12000 kr. og þá um leið ætlast til, að ráðunauturinn væri einn — þetta er rétt, sem eg hefi nú sagt — og undrar mig satt að segja, að háttv. þm. skyldi leyfa sér að koma með slíka fjarstæðu og hann flutti hér á þingbekkjunum.

Þá vildi hann vega að fyrverandi stjórn fyrir það, að hún hafði ekki notað mig við samningaumleitanir í Hamborg. En hvers vegna gerði stjórnin það ekki? Vegna þess að hún var þá ekki búin að skipa mig sem viðskiftaráðunaut, og það var þm. fullkunnugt um. Þá rak háttv. sami þm. augun í 600 kr. ferðastyrk til mín, til Ítalíuferðar. En svo er mál með vexti, að samkvæmt erindisbréfi mínu voru mér fengin 5 þjóðlönd til yfirsóknar — Norðurlönd og Þýzkaland og England og átti eg að hafa til þessa 10 þúsund krónur í kaup og ferðakostnað. Ýmsra orsaka vegna varð eg að fara tvisvar til Noregs og Svíþjóðar, og það varð mér svo dýrt, að eg gat ekki kostað ferð mína til Ítaliu. Um árangurinn af þessari ferð skal eg ekki segja margt. Svo er um ýmsa hluti, að beinn árangur sést kannske aldrei, og hins ber að gæta, að eg var ekki og er ekki verzlunarráðunautur. Annars vil eg leyfa mér að benda á, að eg hefi sent stjórnarráðinu skýrslu um þessa ferð, og ætti hinn háttv. þm. að kynna sér þá skýrslu, áður en hann dæmir um, hvort ferðin hefir verið með öllu til ónýtis, en eg veit með vissu, að hann hefir ekki gert það enn þá. Ástæðan til þess að eg fór ferðina var sú, að nokkur líkindi þóttu til, að hægt væri að auka verzlun milli Íslands og Ítalíu og getur hinn háttv. þm. séð af skýrslu minni, að þetta hefir við rök að styðjast. Eg er þakklátur stjórninni fyrir að hún veitti mér þessar 600 kr. til ferðakostnaðar; en eg græddi ekki á þeirri fjárveitingu, það mundi hinn háttv. þm. sjálfur sannfærast um, ef hann ferðaðist um sömu slóðir. Það er að vísu satt, að ekki verða allar ferðir til fjár og árangurinn af þessari ferð sést ekki enn þá, en eg hef þá von, að nokkuð gagn verði að henni fyr eða síður. Það eitt þykist eg geta fullyrt, að ef duglegir fésýslumenn vildu reyna að nota möguleika þá, sem eg hef bent á í skýrslu minni, þá væri mikil von um árangur. Það eru fleiri, sem geta séð verzlunarmöguleika en kaupmenn og háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.). Skal eg svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni.