24.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

12. mál, vantraustsyfirlýsing og ráðherraskipti

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.) Eg skal ekki vera langorður, en vegna þess, að eg er einn af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu, sem hér liggur fyrir, stóð eg upp.

Hæstv. ráðherra kallaði þessa tillögu okkar gamanleik; það kom mér nú að vísu ekki mjög á óvart, en eg er á nokkuð á annari skoðun.

Miklu meira sannnefni á þessu, sem hér er að gerast, fyndist mér að kalla það sorgarleik. Það er ekkert gaman fyrir okkur flokksbræður hæstv. ráðherra, að neyðast til að bera fram á hann þessa vantraustsyfirlýsingu, eftir að hann aðeins hefir verið við völd um tveggja ára tíma. En mér fyrir mitt leyti þykir nokkuð athugavert, að málgagn h. ráðherra, Ísafold, skuli þegar í stað flytja þessar fregnir út um landið, og kalla framkomu okkar flutningsmanna tillögunnar fávíslega fljótfærni og ýmislegt þess háttar. Þetta kalla eg fyrir mitt leyti hálfgerða blekkingartilraun. Hér er ekkert gert til þess að sýna þjóðinni báðar hliðar málsins, nei, þvert í móti.

Hæstv. ráðherra gat þess, að ekki gæti verið um að tala óhlutdrægni í sinn garð af hálfu minni hlutans. Eg skal ekki um það dæma. En hitt fullyrði eg, að um hlutdrægni geti ekki verið að tala í garð hæstv. ráðherra frá okkur. Eg get fullvissað hæstv. ráðherra um, að það var nauðsynin ein, en engar óhreinar hvatir, sem knúðu oss til að bera fram þessa tillögu. — Það eru fleiri menn en við, sem eru orðnir sáróánægðir með þá pólitísku óáran, sem hér hefir verið í landinu, á þessum síðustu tímum.

Það hefir verið minst á framkomu h. ráðherra í sjálfstæðismálinu, og þykir mörgum þar hafa kent alt of veiklulegrar framkomu gagnvart Dönum; eg er alveg á sömu skoðun. Eg hefði kosið, að hæstv. ráðherra hefði skýrt frá hér á þinginu, hverjar viðtökur lög síðasta þings um samband Danmerkur og Íslands hefði fengið hjá Dönum. Margir út um land hafa spurt að því. Það hefir þótt skrítið, að mál þetta skyldi koma til umræðu á ríkisþinginu, þegar fjárlögin voru rædd. Var málið alls ekki formlega tekið fyrir á þann hátt. Mér finst að hæstv. ráðherra hefði átt að heimta, að ríkisþingið danska tæki málið formlega til meðferðar, heimta að það yrði felt, ef ekki var um annað að ræða — því hefði þjóðin unað betur.

Eg veit vel, að skiftar eru skoðanir manna hér í bæ um þetta efni og svo er líklega víðar, og menn kannske áfella okkur flutningsmenn þessarar tillögu, en við því verður ekki gert; okkur gefst væntanlega kostur á að standa þjóðinni reikningsskap á gerðum okkar í þessu máli, sem og öðrum, og þá en ekki fyr er tími til að ásaka okkur, ef þörf þykir. En nú er málunum þannig komið, að við getum ekki unnið saman við hæstv. ráðherra, getum ekki gengið til kosninga undir hans forustu, og getum heldur ekki lengur borið ábyrgð á stjórnarathöfnum hans.

Og að lokum vil eg enn fastlega mótmæla því, að nokkur undirróður eða óhreinar hvatir hafi ráðið framkomu okkar í þessu máli.