23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Þorkelsson:

Það er æfinlega bæði skömm og gaman að heyra þenn­an kaupahéðinn, og þetta gamalkunna þingfífl, sem nú settist niður, tala. En það er fleira athugavert við tilvitnanir þessarar pólitísku kláðarollu en eg taldi upp áðan. Hér í 10. gr. hefir enn orðið lykkjufall og lokleysa, eins og svo víða annarstaðar hjá þessari þingkind. Í 10. greininni er vitnað í 17. gr. stjórnarskrárinnar frá 1874 í stað þess að vitna í lögin um breytingar á stjórnarskránni frá 3. oktbr. 1903. Frágangurinn allur hjá þingmanni þessum á nefnd­arálitinu og breytingartillögunum er svo, að hann sýnir nokkurnveginn, að þessi þingmaður er ekki fær um að taka þátt í þingstörfum með góðum mönnum né að vera ritari í nefnd. Hann hefir auðsjáanlega haft fyrir sér eintak af stjórnarskránni, þar sem lögin frá 1874 og 1903 hafa verið alveg ólöglega »redigeruð« saman, og því hefir hann farið blindandi, eins og fávís og öktunarlaus smalapiltur, sem flanar áfram án þess að líta í kring um sig, og hefir ekki minstu hugmynd um, hvað hann er að gera.

Eg mun líklega seint fara að sækja ráð til þessa þingmanns um það, sem eg kann að bera hér fram í deildinni. Enda stendur mér, eins og öllum öðrum, alveg á sama hvað hann segir, því það er orðin 40 ára alkunna, að enginn tekur neitt mark á orðum hans. Og því er þannig varið með þennan þingmann, að það, sem hann ekki rangfærir vísvitandi það misskilur hann. Eg gat þess nægilega um leið og eg benti á óvandvirknis-yfirsjónir þingmannsins, að nefnd­arálitið hefði verið birt í blaði einu hér, samhljóða eða mjög líkt því uppkasti, sem skrifari nefndarinnar hafði fyrst flaustrað upp, en þeirra breytinga, sem gerðar voru á þessu uppkasti í nefndinni, var ekki getið í þessu blaði; eg spurði þingmanninn aðeins, hvort hann vissi nokkuð um þetta, en dróttaði engu að honum. Með ráðvendni þeirri, sem þingmanni þessum er lagin og hann hefir á sér almenningsorð fyrir, dróttar hann því að mér, að eg sé manna vísastur til að hafa hlaupið með nefndarálitsuppkastið, sem hann einn hafði í höndum, til blaðs, sem óvingjarnlegt hefir gerst í minn garð. Ekki er nú ólíklega logið! Og þó að vonum. Þessum aðdróttunum hans til mín, vísa eg nú á fæðingar­hreppinn til hans sjálfs. Að öðru leyti kemur mér ekki til hugar, að rökræða í alvöru neitt mál við þessa pólitísku hreppakerlingu.

Mínar breytingartillögur munu liggja hér fyrir við 2. umr., og þá mun mönn­um gefast kostur á að ræða þær.

Annars skal eg geta þess, að frágang­ur allur á nefndarálitinu, er frá skrif­arans (2. þm. S.-Múl. J. Ól.) hendi, hrein­asta handaskömm, sem fer að vonum, því að þingmaðurinn lét eins og óður maður, með að flýta verkinu og flaustra því einhvernveginn af, að minsta kosti alt þangað til hinn nýfráfarni ráðherra hafði fengið vantraustsyfirlýsingu, svo það var ekki von á neinu góðu.