29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögum. minni hl. (Jón Þorkelsson):

Það hefir áður verið skýrt frá því, hvernig stjórnarskrár­frumvarp okkar þm. Dal. (B. J.) er fram komið. Ennfremur hefir verið skýrt frá því, hvernig því hefir verið tekið af andstæðingum okkar. Er okkur jafnvel borið á brýn, að við höfum komið fram með það til þess að gera Dani hrædda! Útlend (dönsk) blöð hafa verið látin skamma okkur fyrir bíræfni, okkur kent um ofurkapp og ofstæki og varnað alls vits og alls þess, sem gott er. En þótt við nú höfum sýnt af okkur þessa ofdirfð, þá væri þó nokkuð með henni unnið, ef frumvarp okkar gæti orðið til þess að skýra ofurlítið upp heilahöll manna um það, hverjar stjórnarkröfur vér eigum að gera. Árið 1906, í alþingismannaförinni til Danmerkur, sást það ljóslega, hversu bjart var í höfðum sumra Íslendinga, því þá höfðu þeir fáar aðrar óskir fram að bera en þær, að Ísland yrði tekið upp í titil konungs, og að ráðgjafinn yrði leystur úr því danska ríkisráði, sem honum hafði verið smeygt inn í 1903. Æðri voru kröfur þeirra ekki. En fyrir afskifti og skrif mín og fleiri manna á næstu árum þá skýrðist málið svo, að menn fóru að átta sig.

Um fæðingjarétt hefir það verið sagt, að það væri sambandsmálefni. Það eru engin ákvæði, sem við ekki ættum að ráða við, um það, hvort svo sé eða ekki. Það erum við einir, sem getum ákveðið það. Eg skal þó játa það, að það er sú eina grein, sem nokkurt umtalsmál getur, ef til vill, verið um, að standi fyrir staðfestingu konungs. Danir gáfu út lög um almennan fæðingjarétt 19. marz 1908, sendu þau hingað og voru þau birt hér með ráðherrabréfi 19. maí s. á. og svo látin gilda. Þingið gerði ekki neitt við þau, en átti annaðhvort að fella þau eða samþykkja. Mönnum virðist hafa verið heldur óljóst hvað hér var verið að gera. Innanríkisráðherrann danski auglýsir dönsk lög hér á landi, og svo eru þau látin gilda. Er sá sofandaskapur, sem átt hefir sér stað í stjórnmálum hér á landi síðustu 30 árin, næsta ótrúlegur.

Það hefir verið minst á breytingu okkar þm. Dal. (B. J.) á 1. gr. Háttv. þm. Snæf. (S. G.) talaði um hana góðmannlega, framsm. meiri hl. (J. Ól.) og hæstv. ráðherra (Kr. J.) héldu hins veg­ar, að hún mundi standa fyrir staðfestingu konungs. En þeir færðu engin rök fyrir því. Það gæti að vísu, ef til vill, verið umtalsmál að orða hana öðru vísi, en enginn hefir þó treyst sér til þess. Það hefir verið vakið máls á því fyr að fella innvitnunina í stöðulögin burtu. Benedikt Sveinsson vildi það, og Einar lagaskólakennari Arnórs­son bar það fram á þingmálafundi hér í bænum, að þegar stjórnarskráin yrði endurskoðuð, þá væri þessi innvitnun feld burt. Var það samþykt í einu hljóði af báðum flokkum. Eg skal og geta nokkurra þeirra þingmanna, sem samþyktu þetta 1894 og sitja enn hér: þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), 1. þm. Skagf. (Ó. Br.), þm. Snæf. (S. G.), 2. þm. Húnv. (Bj. S.), 1. þm. S.-Múl. (J. J.), og í efri deild þm. Ísfjk. (S. St.) og 2. þm. G.-K. (J. P.). Þessir þingmenn hafa samþykt þessa grein mjög svipaða því, sem hún liggur nú hér fyrir. Eg tók svo eftir í gær, að háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði, að þeir félagar vildu hvorki samþykkja stöðulögin í orði né á borði. Það er vel. Eg vil enn í þessu sambandi benda á fyrirsögn stjórnarskrárinnar. Þar standa orðin: »— hin sérstaklegu málefni« Íslands, og kannast eg við, að þessu hefði þurft að breyta, því að »sameiginleg mál« og »sérstakleg málefni« mega ekki sjást í löggjöf vorri. Mætti þá úr þessu bæta við 3. umr.

Hæstv. ráðherra (Kr. J.) talaði um, að 3. liður mundi standa frumv. fyrir staðfestingu, en eg þykist þó vita, að hann muni ekki hafa móti því, hvernig hann er orðaður.

Eg gat þess í gær, mönnum til athuga, að Knútur Berlín hefði ekki þor­að að kalla stöðulögin skýlaust gildandi lög, og minni eg menn á það enn.

Ef eg man rétt, gat framsm. meiri hl. (J. Ól.) þess, að eg væri hlyntur »referendum«. Eg hefi hlotið að komast eitthvað óhepplega að orði, úr því að hann hefir skilið mig svo. Sannleikur­inn er sá, að eg tel »referendum« mjög varhugavert. Eg gat þess að eins, að á síðasta þingi hefði verið gott að hafa slík lagafyrirmæli, að aðflutningsbannið hefði orðið að berast undir þjóðina aftur áður en það varð að lögum. Þetta er í fullu samræmi við það, sem eg sagði á síðasta þingi. Hins vegar þóttist eg taka það skýrt fram, að eg áliti málskot varhugavert, og að þá aðferð ætti að eins að nota við breytingar á stjórnarskránni eða sambandinu milli Íslands og Danmerkur.

Eg hefi tekið eftir, að till. okkar um kjörgengi miðað við heimilisfestu á Íslandi hefir fengið góðar undirtektir. Eg vil geta þess, háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) til verðugs lofs, að viðlíka krafa hefir komið fram á 2 þingmálafundum í kjördæmi hans.

Eg skal ekki tala langt mál um deildaskipunina. Mér finst það óþarfa brak og buldur að fara að hafa tvöfaldar kosningar til svo fámenns þings. Eg vil heldur hafa efri deild eins og hún nú er með konungkjörnum þingmönnum, heldur en að hún sé öll kosin til 12 ára. Þá get eg miklu fremur hall­ast að brtill. háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um það atriði.

Hæstv. ráðherra mintist á breyttill. 2. þm. Árn. (S. S.), um kjörgengi dómara. Hinn háttv. þm. hefir gert okkur þann sóma, að taka upp óbreytta tillögu okk­ar frá upphafi þings, aðeins lætur hann hana ná til allra dómara landsins og ef til vill einnig til sáttanefnda. Við vild­um aðeins svifta dómarana í æðsta dómstóli landsins kjörgengi. Hæstv. ráðh. (Kr. J.) sagði, að þessi till. væri komin frá skrifstofu sjálfstæðismanna og að hún væri ekki stíluð móti öðrum en Kristjáni Jónssyni. Af því að eg er rið­inn við málið, vil eg geta þess, að spurningin um kjörgengi Kristjáns Jónssonar hafði engin áhrif á afstöðu mína til málsins, og mér er kunnugt um, að skrifstofa sjálfstæðismanna vildi ekki hafa nein afskifti af þeim hörmulegu deilum, sem urðu milli hans og fyrv. ráðherra (B. J.), og enn þá síður ofsækja hann. En hvaða þýðingu það hafi, að æðstu dómarar landsins séu ekki flæktir við pólitískt skítkast og skammarverk, þykist eg ekki þurfa að gera nánari grein fyrir því. Hæstv. ráðherra sagði, að þessi till. væri ástæðulaus og styddist ekki við söguleg rök. En eg man ekki betur, en að í »fjárdráttarmálinu« svo nefnda dæmdi landsyfirréttur — allur í einu hljóði þori eg ekki að segja — að »fjárdráttur« væri ósaknæmt orð og töldu margir það hlutdrægni. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði þá ótvírætt í blaði sínu, að dómarar landsyfirréttarins væru, sjálfum sér óafvitandi, hlutdrægir, af því að þeir væru gagnsósa af pólitísku ofstæki og flokksfylgi. Slíkar voru umræður manna þá. Till. þessi er því ekki alveg gripin úr lausu lofti, enda ættu menn að geta gert sér ljóst, að friðhelg­ir dómarar eiga ekki að vera riðnir við flokkadrætti og deilumál. Eg hygg, að flestir mundu kjósa, að dómstólunum væri svo fyrirkomið, að þeir hefðu almenningstraust. En ef dómararnir standa í pólitískum loga, þá er meiri von, að nokkuð hallist til um réttdæmi þeirra. Satt er það, að eigi er hægt að banna þeim fremur en öðrum skikkanlegum mönnum að hafa sínar skoðanir á landsmálum og láta þær í ljósi; en hitt er ófært, að þeir taki þátt í pólitískum æs­ingum. (Ráðherrann (Kr. J.): Þegar dómur sá, sem háttv. þm. gat um, var dæmdur, var enginn af dómurum landsyfirréttarins við pólitík riðinn! Enginn þeirra átti þá sæti á þingi!) Þeir voru alt um það mjög ákveðnir flokksmenn.

Eg er þakklátur hinum háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) fyrir það, að hann er mér samdóma um, að skottið eigi að falla af þeirri grein, sem leggur hegning á þá menn, sem eru í öðru kirkjufélagi en þjóðkirkjunni.

Eg hefi áður minst á hina nafnkunnu fjárlagatill. Eg sé ekki betur en að með henni sé verið að taka ráðin af þinginu, draga úr þingræðinu en auka vald stjórnarinnar. En það getur þó ekki verið tilætlun þingsins. Samkvæmt till. yrði minni hlutanum ókleift að koma fjárveitingum fram, hann yrði að eiga alt undir náð stjórnarinnar og meiri hlutans.