29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Framsm. (Magnús Blöndahl):

Hér eru komnar fram 2 brtill. við þetta frumv. Um breytingarnar, sem stungið er upp á á þgskj. 329, þarf eg ekki að fara mörgum orðum. Eg get lýst því yfir, að nefndin mun geta gengið að þeim. Þær miða að eins til þess að færa frv. til betra máls, og get eg því leitt hjá mér að tala frekar um þær.

En um brtill. á þgskj. 364 neyðist eg til að fara nokkrum orðum, og þá um

leið ræðu háttv. 2. þm. Árn. (S. S.). Og eg verð að segja það, þótt mér þyki það leitt, að það lítur helzt út fyrir það, að hann hafi ekki vel skilið það, hvað hann var að fara með. Ræða hans virtist bera það með sér, að hann hafi ekki litið í plögg þau, er frammi hafa legið í málinu, eins og t. d. hafnarnefndarálitið o. fl. Ef þingm. hefði gert það, þá er næsta ótrúlegt, að hann skuli koma með jafnmiklar fjarstæður, eins og hann gerði. Hann byrjaði á því, að segja að þetta væri stórmál, og það er satt. Það er óefað eitthvert stærsta málið, sem fyrir þinginu liggur. Hann sagði, að það hefði verið lítið rætt af þinginu og af bæjarbúum. Hann vék að því, að ekki hefði verið haldnir um það borgarafundir, og skildist mér svo, sem hann þættist óviss um vilja bæjarbúa í þessu efni. Það er nú að vísu satt, að ekki hafa orðið langar umræður um málið hér í deildinni enn sem komið er, það var strax sett í nefnd, og hefir hún haft það til rækilegrar meðferðar á mörgum fundum. Þess vegna er ekki rétt að segja, að það sé sama sem ekkert rætt. Og það má ganga út frá því sem gefnu, að þótt það hafi ekki verið meira rætt í háttv. deild en þetta, þá kemur það ekki af öðru en því, að flestum háttv. þm. mun vera það ljóst, hve mikið nauðsynjamál þetta er, og svo hinu, að háttv. deild hefir borið það traust til nefndarinnar, að þeir þykjast nokkurn veginn geta reitt sig á, að hún muni hafa athugað það rækilega og ekki ráða háttv. deild til annars en þess, sem óhætt er. En viðvíkjandi því, hve lítið málið hafi verið rætt á borgarafundum hér, skal eg minna á það, að það lá fyrir öllum þingmálafundum fjórum í vetur og var rætt þar nokkuð og samþykt á þeim öllum með hverju einasta greiddu atkv., og mun vera óhætt að telja þau 12—1400. Það nær því engri átt, að segja, að mál þetta sé lítið rætt, þar sem það hefir verið nálega daglegt umræðuefni á götum úti og í húsum inni hvar sem 2 eða 3 bæjarbúar hafa verið saman komnir, eins og háttv. þm. vel mátti vita, og þurfti hann því ekki að koma svo ókunnuglega fram. Þá mintist hann á það, að ekkert væri sagt um það, hvaða tekjur fyrirtækið kynni að gefa af sér, er það væri komið á stofn. Hér kennir aftur hins sama, að hann hefir ekki lesið málsskjölin. Í nefndaráliti hafnarnefndar stendur greinilega um þetta, og skal eg benda honum á það, ef hann vill lesa það. Hann benti á það, að mörg gjöld væru talin upp í frv., sem sjálfsagt mundu gera vörurnar miklu dýrari, og skildist mér svo, sem hann bæri kvíðboga fyrir því, að þetta kynni að verða svo mikið, að það yrði fráfælandi fyrir skip að koma hingað og nota höfnina, og efaðist því um, að nokkur bót yrði að þessu. Og af þessum ástæðum vildi hann ekki leggja mikið upp úr þeirri skoðun vorri, að þetta væri fyrsta sporið til þess að koma hér á fót stórverzlunum, og yfirleitt að gera verzlun vora sem mest innlenda. Það er ætíð létt verk að kasta fram órökstuddum sleggjudómum, og það máske allra hægast, þegar menn hleypa sér út í að tala um málefni, er þeir bera lítið skynbragð á, en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum vilja þó til lífs, því ef menn vilja góðu fyrirtæki illa, þá má ef til vill með slíkri aðferð gera það tortryggilegt í svip, svo að hik komi á menn. En hér er þó um svo gott mál að ræða, að eg hygg, að háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) þurfi ekki að ætla sér þá dul, að hann með framkomu sinni gegn málinu í dag geti unnið því það slys, sem framkoma hans þó virðist benda til.

Þar sem hann óttaðist, að svo há gjöld yrðu lögð á skipin og að það yrði þeim því svo dýrt að nota höfnina, að tvísýnt væri hvort vörurnar þyldu það, og mundi það fæla menn frá því að nota höfnina og gera hana þannig ónýta, — þá er því til þess að svara, sem háttv. þm. hefði átt að aðgæta sjálfur, að gjöldin sem hafnarnefndin leggur til að lögð verði á vörurnar, eru fyrirfram nákvæmlega yfirveguð og borin saman við þann kostnað, sem verið hefir við að koma þeim hér á land. Og gjaldið verður þó lægra en það, sem kaupmenn greiða nú fyrir uppskipun etc. En þótt svo færi, að til þess þyrfti að grípa, að gjaldið yrði jafnhátt og nú, þá vona eg að allir verði mér samdóma um það, að hagnaðurinn af þessu mannvirki á hinn bóginn verði óefað svo mikill, að ekki sé horfandi í þann kostnað. Háttv. þm. mintist á höfnina austanfjalls og það, að hún stæði ekki í neinu sambandi við þetta. Um það er eg honum samdóma, en ekki um hitt, að sú höfn yrði nokkurntíma að notum fyrir Faxaflóa fiskiskip. Þau mundu aldrei fara að leggja þar upp afla sinn og annað, né sækja þangað útgerð sína á neinn hátt, að minsta kosti ekki í langri framtíð.

Þá er enn það, hvort ekki væri hugsanlegt að koma hér upp ódýrari höfn, en þeirri, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, og nefndi þm. í því sambandi Skerjafjörð. Ef háttv. þm. er það ekki kunnugt áður, þá skal eg geta þess, að Smith hafnarverkfræðingur frá Kristjaníu, sá er gert hefir uppdrættina að höfninni, hefir athugað bæði þann stað og aðra hér nærlendis. Og maður þessi, sem að dómi þeirra manna, er hann þekkja bezt, er vel fær að dæma um slíka hluti, þar eð hann hefir bæði til að bera sérþekking og reynslu, hann álítur að ekki geti komið til mála að gera höfnina annarstaðar en þar, sem nú er ætlast til að hún verði. Í fyrsta lagi mundi það verða miklu dýrara en menn héldu, og í öðru lagi eru á hinum öðrum stöðum, er nefndir hafa verið, þeir annmarkar, sem gera það alveg óhugsanlegt, svo sem hætta við ís, örðug innsigling vegna skerja, sem sumstaðar yrði að sprengja burtu, ásamt mörgu fleiru?

Eg geri ráð fyrir því, að háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) hafi séð í reikningum hr. Smiths að bent er á að gera mætti hér höfn fyrir minna fé, ef ekki væri kleift að leggja nú þegar út í að byggja fullkomna höfn. En til þess höfum við ekki ráð, því að hún kæmi oss aldrei fyllilega að notum, eins og hin fullkomna höfn mundi gera. Þessvegna hefir hvorki bæjarstjórn né nefndinni komið til hugar að sætta sig við slíkt hálfverk.

Þá er að minnast á brtill. háttv. þm. við 1. gr.. um að þessi 400 þús. kr. greiðist bæjarstjórninni úr landssjóði með 50 þús. kr. á ári næstu árin. Þetta á að vera gert vegna þess, að líkindi eru til þess, að svo mikið verk standi lengi yfir, en ef svo væri ekki, þá þyrfti að leita út fyrir bæinn eftir vinnukrafti, og það telur hann óheppilegt. Hann hefði nú getað sparað sér alt fimbulfamb um þetta efni, sem aðrir eru búnir að taka fram áður, ef hann hefði lesið hafnarnefndarálitið. Þar stendur skýrt að ætlast sé til að upphæðin greiðist á c. 8 árum (Sigurður Sigurðsson: Nefndarálitið er ekki lög). Satt er það, en á því er þó frumvarp þetta bygt. Og þetta verður ekki heldur gert á skömmum tíma, — ekki skemmri en 6—8 árum, og er því þessi aths. óþörf, þar sem málið er jafnskýrt. Þá mælti hann mikið með því, að landssjóðsábyrgðin væri færð niður úr 1200 þús. kr. í 800 þús. kr. Hann talaði nú raunar um lán, en hér er aðeins að ræða um ábyrgð á láni. (Sigurður Sigurðsson: Það er nú skylt). Eins og hér stendur á, er það að minsta kosti alveg sitt hvað. Hann studdi þessa tillögu sína við það, að bærinn hefði færst svo mikið í fang á síðustu árum — vatnsveituna, gasið o. fl. — að ekki væri miklu á bætandi. Eg skal játa að hér var um stórfyrirtæki að ræða, en eg vona að allir, og jafnvel þm. sjálfur, geti verið mér samdóma um það, að það sé ekki rétt að gefa í skyn, að hér hafi verið um eyðslufé, og þá meiri eða minni óþörf fyrirtæki að ræða, með því að hér var um bráðnauðsynleg og í fylsta máta þörf fyrirtæki að ræða, sem sýnilega verða arðvænleg bæjarfélaginu. Þessvegna verð eg að líta svo á, að með því að eignast þessi miklu og góðu mannvirki, vatnsveituna og gasstöðina, verði bærinn mun betur stæður en áður, og þá ætti að vera þeim mun óhættara að veita honum lán. Þetta veit hinn háttv. þm., og eg vona að hann kannist við það.

Þá gerði hann fyrirspurn um það, hvort nokkuð hefði verið leitað til félaga, innlendra eða útlendra, eða þá einstakra auðmanna um fjárstyrk til þessa fyrirtækis. Því skal eg svara skýrt og skorinort, að eg veit ekki til að nokkrum manni hafi dottið slíkt í hug, nema 2. þm. Árn. (S. S.). (Bjarni Jónsson: Heyr!) Eða hefir háttv. þm. gert sér ljósa grein fyrir því, hverja þýðingu og óhollar afleiðingar slíkt mundi hafa? Ef bæjarstjórnin hefði tekið það ráð, þá efast eg ekki um það, að hægt hefði verið að fá eitthvert fé, en það mundi hafa orðið ýmsum skilyrðum bundið, og eg ætla þingmanninum sjálfum að sjá það, hvort slík skilyrði mundu hafa orðið aðgengileg fyrir bæinn. Hann veit að þegar slíkur styrkur fæst frá öðrum þjóðum, þá vilja þær hafa ýms hlunnindi í staðinn, og þá getur farið svo áður en varir, að þeir fái um of tök á, eða umráð yfir slíkum mannvirkjum. Annað eins og þetta er stórhættulegt og væri hægt að útlista það nánar, en eg sleppi því tímans vegna, vil aðeins geta þess að slíkt má ekki heyrast né koma fyrir.

Þar sem þm. leggur það til, að færa niður lánsábyrgðina, þá mun það hafa vakað fyrir honum, að þetta kynni að vera varlegra fyrir landssjóð, líklega af því að bærinn væri tæplega fær um að standa straum af þessu. En áhætta landssjóðs við þetta er engin, og vona eg að þm. verði mér samdóma um það við nánari athugun, því að hér er ekki um það að ræða fyrir bæinn að leggja út í fyrirtæki, sem ekki er búist við að beri sig, og meira en það, þegar frá líður. Áhættan ætti eiginlega að vera mest fyrir bæinn sjálfan, ef um nokkra áhættu væri að ræða, en bæjarmenn eru þess fullvissir, að eftir nokkur ár verði beinu tekjurnar af höfninni orðnar svo miklar, að þær borgi að minsta kosti vexti og afborganir, að ótöldum öllum hinum óbeina hagnaði, er fyrirtækinu hlýtur að fylgja.

Að vísu er eg ekki við því búinn, að sanna þetta með órækum tölum, enda þarf þess ekki. Reikningur hafnarnefndarinnar sýnir það, að ekki þarf að hækka gjöldin til þess að svona fari, og að öllu er óhætt.

Það sem aðallega vakti fyrir bæjarstjórninni, þegar hún fór fram á það, að landssjóður ábyrgðist þetta lán, var ekki það, að ómögulegt væri að fá það án milligöngu eða ábyrgðar landssjóðs, heldur hitt, að með því að njóta hennar voru allar líkur til þess, að lánið fengist með vægari kjörum en annars. Það segir sig sjálft, að þótt fyrirtækið gefi ekki af sér þær tekjur á fyrstu árunum, sem hrökkvi fyrir vöxtum, afborgunum og viðhaldskostnaði, þá verður bærinn sjálfur að leggja til það sem á kynni að vanta og það ætti ekki að vera erfitt fyrir hvern sem athugar hag þessa bæjar, að gera sér það ljóst, að hættan er engin við landssjóðsábyrgðina. Eg skal játa, að það gæti orðið varasamt, ef stórslys, eins og jarðskjálfta eða eldgos bæri að höndum, ef bærinn hryndi eða annað því, um líkt. En þá væri nú hætt við því, að ekki yrði mikið varið í landsins ábyrgð heldur, svo að lítið þýðir að gera ráð fyrir slíku. Eg vona því að allir sjái og játi, að óttinn við ábyrgðina er ekki á rökum bygður, bærinn stendur á bak við með allar sínar eignir og höfnina, sem verður arðvænlegt fyrirtæki.

Eg sé svo ekki ástæðu til þess, að segja meira að svo stöddu. Frumvarpið hefir átt því láni að fagna, að háttv. deild hefir tekið því vel, og eins vona eg nú, að menn greiði götu þess við þessa atkv.gr. — En um breyttill. á þgskj. 364 verð eg fyrir mitt leyti að segja það, — og reyndar nefndin líka — að eg legg fastlega til að þær verði feldar. Skal eg svo ekki fjölyrða meir að sinni.