25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

125. mál, eiðar og drengskaparorð

Framsögumaður (Jón Magnússon):

Eg hefi lítið annað um þetta mál að segja en það, sem stendur í nefndarálitinu og get því vísað til þess. Nefndin hefir ekki viljað gera neinar breytingar á frumv., eins og það kom frá háttv. Ed., vegna þess hve liðið er á þingtímann og verulegar breytingar gætu ef til vill orðið þess valdandi, að málið næði ekki fram að ganga. Í frv. eins og það nú er felst talsverð réttarbót. En þó er það ljóst, að það hvorki fullnægir að öllu leyti óskum síðasta þings, né hefir farið nógu langt í breytingunum, Það, sem aðallega vantar í frv., er eiðfesting fyrir aðra viðurkenda trúarflokka en kristna menn, t. d. Gyðinga. Raunar má nota áminningarræðuna sjálfa við þá, en aðferðin að rétta upp 3 fingur er ekki rétt. Gyðingar rétta, þar sem eg þekki til, upp alla hendina, þegar þeir vinna eið. Þetta kemur raunar sjaldan fyrir hér, en þyrfti þó að hafa eitthvert ákvæði um það. Það kom t. d. fyrir mig í vetur að taka eið af Gyðingi. Við nefndarmenn höfum aðeins gert örlitla orðabreytingu við frv. og borið okkur saman um hana við nefndina í Ed. og fengið vissu fyrir, að sú breyting muni ekki hindra framgang málsins þar. Eg vil því leyfa mér að leggja til, að frv. verði samþykt með þessari litlu breytingu, sem er aðeins leiðrétting á máli.