10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

30. mál, laun sóknarpresta

Sigurður Sigurðsson:

Út af ummælum háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) um afstöðu Ed. gagnvart breyt.till. minni, þá skal eg geta þess, að eg sé ekki ástæðu til að láta það hafa áhrif á afdrif tillögunnar hér í deildinni eða aftra því, að hún nái fram að ganga. Og eg sé heldur ekki neitt á móti því, þótt Ed. fái að sjá framan í frumv. aftur. Annars kannaðist háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) við, að breyt.till. færi í rétta átt. Samkvæmt frv. eru byrjunarlaun presta 1300 kr., eftir 12 ár eiga þau að vera 1500 kr. og eftir 22 ára þjónustutíma 1700 kr. Hér raskast hlutfallið. Það ætti, eins og breyt.till. fer fram á, að vera 1700 kr. eftir 24 ára embættistíð.

Eg gat þess í hinni fyrri ræðu minni, að hér væri um nokkurn sparnað að ræða. Og það hefir verið sagt bæði hér í deildinni og víðar, að ekki veiti af þótt sparað sé. Tillagan hefir í för með sér eigi svo óverulegan sparnað fyrir prestlaunasjóðinn. Ef tillagan verður samþykt, þá nemur sparnaðurinn 200 kr. á ári í 2 ár eða 400 kr. alls fyrir hvern prest, sem ætti eftir frumv. að komast upp í þriðja launaflokk eftir 22 ár, en samkvæmt minni tillögu ekki fyr en eftir 24 ár. Þetta er ekki þýðingarlaust. Eg vil biðja menn að athuga það nákvæmlega. Það hefir ekki verið sýnt fram á, að þetta sé ósanngjarnt eða skerði rétt nokkurs manns. Mér fyrir mitt leyti finst breytingartillagan eðlileg, og sparnað hefir hún í för með sér, ef hún nær fram að ganga.