01.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

63. mál, Húsavík með Þorvaldsstöðum

Framsm. (Pétur Jónsson):

Eg er samþykkur efni breyttill. á þgskj. 825, að rétt sé að láta kúgildin fylgja með í kaupunum, eða þau a. m. k. gengju inn í eign hreppsins, þegar núverandi prestur skilar brauðinu af sér, en hitt að hækka söluverðið um 2000 kr., fyrir það að kúgildin fylgja með, get eg ekki séð að rétt sé og hygg, að stafi af misskilningi. Þess verður líka að gæta, að stjórnin hefir rétt til að setja það verð á jörðina, sem hún álítur hæfilegt, eftir upplýsingum þeim, sem hún aflar sér. Þetta er sjálfsagt að stjórnin geri og eg hygg, að ástæðulaust sé, að vantreysta henni í því efni. En verði jarðarverðið hækkað til muna, eg tala nú ekki um, ef það verður hækkað um 2000 kr., eins og till. fer fram á, þá er það áreiðanlegt, að það verður frágangssök fyrir hreppinn að ganga að kaupunum. Þetta lágmark, 25,000 kr., er í hæsta lagi, þorpið er ekki svo efnað, að það geti lagt mikið fé árlega í sölurnar fram yfir þær tekjur, sem hreppurinn kemur til að hafa af jörðinni.

Það er fyllilega nóg fyrir jörðina 25 þús. kr. bæði eftir virðingu og eftir því, sem hún gaf af sér 1907. Síðan 1907 hefir atvinnurekstri og efnahag manna farið aftur í Húsavík. Þar hefir orðið sá árekstur, eins og annarstaðar, að horfurnar eru þar lakari nú en þá, lóðargjöldin aukast ekki því aðstreymi fólks þangað er stöðvað og nýbyggingar sömuleiðis. Ef deildin vill auka við verðið, má ekki fara hærra en verði kúgildanna nemur, en hæsta verð á kúgildi er í Húsavík 100 kr. Því má ekki fara hærra en eg geri í brtill. minni, það er að bæta við 600 kr. Það er eðlilegt, að þorpið vilji fá þá lóð, sem er byggingarlóð, og óþægindi að því, að salan dragist. Meðan jörðin er í varðveizlu prestsins er örðugt fyrir hreppsbúa að hugsa til um ýmislegar umbætur, sem gera þarf, vegi o. fl., sem hækkar lóðina í verði, án þess þorpið njóti þeirrar verðhækkunar sjálft. Þorpið leiðir því þesskonar umbætur hjá sér sem mest, meðan svona stendur; má og benda á það, að það er víst, að þorpið hefði lagt í bryggjugerð þá á sinn kostnað, sem fjárveitingin á fjárlagafrumvarpinu er ætluð til, en ekki privatstofnun aðallega.