29.04.1911
Sameinað þing: 27. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Stefán Stefánsson 6 (kgkj.):

Þessar brtill. hafa allar það sameiginlegt, að þær eru smávægilegar; þær eiga líka allar það sameiginlegt að þær eru fremur til skemda en bóta. Háttv. framsögumaður (Sig. Sig.) hefir skýrt ítarlega brtill. nefndarinnar á þingskj. 700. Eg er honum sammála um, að það sé ekki svo mikill munur á því, hvort skoðunarmennirnir eru 3, eins og fyrsta brtill. nefndarinnar fer fram á, eða 1, eins og efri deild hefir lagt til, en hann er þó nokkur. Eins og menn vita, þá hafa smátt og smátt verið að breytast skilyrðin fyrir styrkveitingum til búnaðarfélaga og breytingarnar hafa alt af gengið í þá átt að gera skilyrðin strangari. Eftir því sem áhugi manna á jarðabótum fer vaxandi, því strangari mega og eiga skilyrðin að vera. Breyting efri deildar á tillögunni gekk líka einmitt í þessa áttina. Fyrst framan af voru skoðunarmenn margir, einn í hverjum hreppi, en á þinginu 1901 var ákveðið, að þeir skyldu ekki vera nema 3 í sýslu. Þetta var gert til þess, að meira samræmi kæmist í skýrslurnar, og svo líka til þess að hægra væri að fá 3 hæfa menn en marga. En vitanlega er þó allra bezt, að hafa að eins 1 mann í sýslu, því með því eina móti gæti komist fullkomið samræmi í skýrslurnar. Það er rétt, að ekki er gott að koma þessu við í sumum sýslum landsins, eins og t. d. Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu; en við í efri deild settum undir þann leka með því að heimila sýslunefndum að kjósa 2—3 skoðunarmenn með samþykki Búnaðarfélags Íslands; með því móti mundi svo fara, að þær einar sýslur fengju 2—3 skoðunarmenn, sem þyrftu þess með, þær sýslur sem óframkvæmanlegt væri að hafa að eins einn skoðunarmann í. Eg verð því að halda fast við greinina eins og hún kom frá efri deild og leggja á móti brtill. nefndarinnar, með því að hún er heldur til skemda.

Þá eru næstu 3. brtill. um að setja safnþró í staðinn fyrir safngryfju. Mér er auðvitað sama, hvort orðið er, en finst það þó heldur til skemda, af því að orðið er rangt hneigt. Það ætti að vera safnþrær, en ekki safnþrór. En lang-einlægast finst mér að láta það óbreytt.

Það sem háttv. þm. Dalam. sagði um metrana var alveg rétt. Það er miklu betra að hafa m1, m2 og m3 heldur en útlendu nöfnin. Það var þó ekki þess vegna sem við settum það, heldur til samkomulags við háttv. neðri deild. Oss þótti auðsætt, að það mundi engan meiða að hafa þessi alheims tákn, og eg skil ekki að nokkur fari að amast við því; það er því sjálfsagt að láta einnig þetta standa óbreytt. Allir, sem við þetta fást, þekkja hvað m1 m2 og m3 táknar, allir skoðunarmenn að minsta kosti ættu að vera svo vel að sér.

Þá er brtill. á þingskj. 803 frá háttv. þm. Seyðf., sem mér finst líka vera fremur til skemda en bóta. Oss efri deildarmönnum þykir það mikilsvert að ákvæðið um, að það þurfi minst 8 menn til þess að mynda félag, fái að standa óbreytt. Þessi tala er svo lág, að oss finst færri megi tæplega félag heita. Háttv. þm skýrði frá því, að á Austurlandi væri einn hreppur, þar sem ekki væru nema 9—10 búendur og þar væri ekki hægt að mynda búnaðarfélag, ef félagatalan væri bundin við 8 menn. En þeir geta vel stofnað búnaðarfélag, ef þeir hafa nokkurn áhuga á því. Þeir sem vilja það eiga að fá hina sem ekki vilja það, til að ganga í félagið, og takist það ekki, þá er alt af hægurinn hjá að ganga í búnaðarfélag næsta hrepps, og þá er ekkert til fyrirstöðu að þeir fái styrk. Mér finst að það verði að gera kröfu til, að búnaðarfélög, sem styrk eiga að fá úr landssjóði, séu nokkuð fjölmenn. Eg legg því til, að þessi brtill. sé líka feld.