13.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Sigurður Hjörleifsson:

Þetta mál, sem hér er til umræðu, er sjálfsagt það málið, sem mesta eftirtekt vekur út um alt land, allra þeirra mála, sem liggja fyrir þessu þingi. Sú ástæða liggur til þess fyrst og fremst, að meira hefir verið talað um þetta mál en öll önnur mál um undanfarinn tíma, og jafnframt hitt, að málið er orðið mörgum tilfinningamál. Meðferð þessa máls og afdrifum þess hér í deildinni í dag mun verða veitt eftirtekt ekki sízt fyrir þá sök, að hér eru að fella úrskurð um þetta mál þeir menn, sem mest eru við málið riðnir, ef svo mætti að orði komast, þeir sem ákærðir eru í þessu máli. Með öðrum orðum sjálfir málsaðilarnir öðrumegin eru hér æðstu dómarar í málinu. Þegar svo einkennilega stendur á, má búast við því, að það sem gerist hér í deildinni í dag veki eftirtekt ekki að eins hér í höfuðstaðnum, heldur út um alt land. Og það má búast við, að það veki eftirtekt víðar en hér á landi, því að mér þykir ekki ótrúlegt að afdrif málsins verði símuð til Kaupmannahafnar ekki löngu eftir að atkvæðagreiðslu í málinu verður lokið hér í deildinni. Má vera, að sá sé einmitt tilgangurinn með því að flýta málinu svo mjög. Eg geri jafnframt ráð fyrir að gerðir deildarinnar í þessu máli veki eftirtekt enn þá víðar, ekki sízt hjá þeim stofnunum utanlands, sem Landsbankinn hefir mest viðskifti við.

Það má telja þrjá merkisdaga í þessu máli, eða hátíðisdaga, þó að margir hafi verið tyllidagar þar fyrir utan. Fyrsti merkisdagurinn er 27. apr. 1909, þegar bankarannsóknarnefndin var skipuð. Þá er 22. nóv. 1909, þegar stjórn Landsbankans var vikið frá, og loks 3. jan. 1910, þegar háyfirdómari Kristján Jónsson lét setja sig inn í bankann með fógetavaldi. Frá þessum þremur stórhátíðum má telja þá viðburði, sem gerst hafa í þessu máli.

Hvað er nú að segja um fyrsta höfuðviðburðinn í þessu máli, skipun rannsóknarnefndarinnar? Eg veit ekki betur en að allir sanngjarnir menn á landinu viðurkenni það nú, að þessi stjórnarráðstöfun hafi verið fullkomlega réttmæt, að það hafi komið í ljós, að skipun nefndar til að rannsaka hag Landsbankans hafi verið mjög svo þarfleg og gagnleg. Hvað sem sagt er um gerðir hæstv. ráðherra að öðru leyti, þá fullyrði eg, að þjóðin er nú sammála um, að það hafi verið fyllilega rétt gert að skipa nefnd til að athuga það mál.

Þá er næsti merkisdagurinn, 22. nóvbr. 1909. Því er haldið fram, að ráðherra hafi ekki haft nema lítilfjörlegar ástæður til að byggja á þá stjórnarathöfn, sem þá fór fram, eða réttara sagt ekki aðrar ástæður en skýrslu rannsóknarnefndarinnar frá 16. nóv., um víxlakaup starfsmanna bankans, og í öðru lagi það, hvernig bankastjórnin snerist í fyrirskipanir stjórnarinnar um gerðabókarhald í bankanum. — En fyrst er það, að þessar ástæður eru ekki lítilfjörlegar, og í annan stað er þessi staðhæfing alveg röng. Það er full vissa fengin fyrir því við rannsókn málsins, að ráðherra hefir þá verið kunnugt um margt fleira, það er hann taldi bankastjórninni til ávirðingar eða áleit ábótavant. Þar á meðal má telja, að það vantaði á víxlaforða þann, sem bankinn átti að eiga. Enn fremur að uppgerð sparisjóðsins var ekki í fullri reglu, og loks að töluvert var álitið tapað af útlánum bankans. Alt þetta var ráðherra fullkunnugt um. Náttúrlega verður hver og einn að meta, hvort honum þykir þetta nægar ástæður til frávikningarinnar eða ekki. En annars skiftir það nú ekki máli, hvort fullgildar ástæður voru þá fyrir hendi. Hitt er meira um vert hvort svo mikil brögð hafa verið að óreglu í stjórn bankans, að þessi stjórnarráðstöfun gæti réttlæzt af því, sem fram hefir komið yfir höfuð í því efni.

Þá er að minnast á 3. merkisdaginn í þessu máli, 3. janúar 1910. Þá setur fógeti annan gæzlustjórann inn í bankann, af því að ráðherra hafði neitað honum, um að taka aftur sæti í stjórn bankans. Það hneykslaði háttv. 5. kgk. þingm., að eg skýrði frá því í nefndaráliti minni hlutans, að aðalástæðan til þessarar ráðstöfunar stjórnarinnar muni hafa verið umsögn dönsku bankamannanna, sem þar er getið um. Þó að ráðherra vitanlega teldi ýmsar ávirðingar bankastjórnarinnar svo miklar, að hann áleit fulla ástæðu til að víkja henni frá, — það er enginn vafi á því að hann taldi svo, — þá vita allir að sterkasta ástæðan, sú sem reið baggamuninn og réð því, að gæzlustjórarnir voru ekki látnir taka sæti sín í stjórninni aftur á nýári, var einmitt þessi yfirlýsing dönsku bankamannanna, sem þeir gáfu í viðurvist ráðherra og fleiri manna. Og mér þykir það næsta undarlegt, að háttv. 5. kgk. þingm. skuli leyfa sér að lýsa það lygi, að nokkur slík yfirlýsing hafi verið gefin, og byggja það á því einu, að Landmandsb. hefir í símskeyti kveðið nei við þeirri spurningu nefndarinnar, hvort landstjórnin hafi spurst fyrir um það hjá bankanum, hvað hann mundi gera, ef gæzlustjórarnir væru látnir taka sæti sín aftur í stjórn Landsbankans. Þetta er alt annað mál. Í þessu svari Landmandsb. liggur engin sönnun fyrir því, að dönsku bankamennirnir hafi ekki lýst yfir þessu, sem eftir þeim er haft. Það er furðu frekt að lýsa ósannindamenn alla þá sem um þetta hafa borið. Háttv. 5. kgk. gat þess einnig, að þessi skýrsla stæði hvergi í skýrslu dönsku bankamannanna, sem lesin var fyrir nefndinni, og mér fanst hann gefa í skyn, að það væri sönnun þess, að þeir hefðu aldrei gefið slíka yfirlýsingu. Það er satt, að yfirlýsingin stendur ekki í skýrslunni, en það er engin sönnun fyrir því, að yfirlýsingin hafi ekki komið fram, enda er það þvert á móti bæði satt og sannanlegt.

Úr því að eg minnist á þessa skýrslu dönsku bankamannanna, skal eg leyfa mér að skýra háttv. deild frá nokkrum atriðum, sem eg man eftir úr umsögn þessara manna um stjórn bankans. Eg álít mér það fullkomlega leyfilegt, að eg skýri frá því sem engan meiðir og kemur ekki of nálægt viðskiftalífi einstakra manna. Það getur ekki verið ætlast til þess, að þagað sé yfir slíkum ummælum í skýrslunni, er gætu orðið málinu til skýringar.

Skýrslan lýsir því, að mjög mikil óstjórn hafi verið í bankanum. Það er fundið að mjög mörgu, t. d. að ýmsu, sem átti að bera saman í bókum bankans og reikningum, hafi ekki borið saman. Þar er einnig talað um veðsetningu varasjóðs og haft eftir framkvæmdarstjóra bankans að yfirlýsingar bankastjórnarinnar í því efni hafi verið gefnar „af Partihensyn“ og „forfattet i Kampens Hede“, en verðbréf þau, sem um var að ræða, hafi verið sett að tryggingu fyrir ákveðinni skuld, er bankinn var í við Landmandsbankann. Þegar bankamennirnir spurðu annan gæzlustjórann, hvort hann vildi mótmæla þessari skýrslu framkvæmdarstjóra, þá svaraði hann því einu, að þeirri spurningu vildi hann ekki svara. Þetta svar gæzlustjórans þykir mér all-einkennilegt, eftir því sem á undan var gengið. Það er hægðarleikur að vera stórorður frammi fyrir þjóðinni og gugna svo þannig, þegar á hólminn kemur. — Eg get bætt því við, að um hinn gæzlustjórann er sagt, að hann hafi ekki heldur viljað láta í ljósi neina sjálfstæða skoðun um þetta atriði. Eg man líka þau ummæli úr skýrslunni, að bankastjórnin hafi „ladet slaa til“, ekki hugsað nægilega um, hvort lántakendur væru borgunarmenn fyrir lánunum, en lánað ört út gegn vafasömum tryggingum, og ekki sjaldan veitt hættuleg lán, sem hinn bankinn hafði neitað um. En fremur, að afsetningin hafi verið „absolut nödvendig“, því að ella hefði bankinn „sokkið enn dýpra niður í fenið“. Bankastjórnina hafi vantað alt yfirlit, störfin hafi vaxið henni yfir höfuð, og án þess að víkja bankastj. frá hefði verið ómögulegt að koma bankanum í betra horf, sem þó hefði verið alveg nauðsynlegt. — Þá var það og tekið fram í skýrslunni, að annar gæzlustjóranna hefði talið, að tap bankans mundi nema 1—2 hundr. þús. krónum. Eg get þessa atriðis vegna þess, að því var neitað hér áðan, að þetta stæði í skýrslunni. — Enn man eg eftir því, að það var skýrt frá, að ósamræmi hefði verið milli höfuðbókar og annara bóka bankans, þar sem samræmi átti að vera, og bendir þetta á að eftirlit endurskoðunarmanna bankans hafi heldur ekki verið gallalaust, eða ekki eins nákvæmt og hefði þurft að vera.

Þetta er þá álit dönsku bankamannanna um stjórn og ástand bankans. Það sýnir oss eins og í spegli, hversu heppileg ráðstöfun það hefði verið, ef gæzlustjórarnir hefðu verið settir aftur inn í stjórn bankans. Ef þetta álit er borið saman við yfirlýsinguna, sem þessir sömu menn gáfu, áður en þeir fóru héðan, að þeir mundu ráða Landmandsbankanum til að hætta viðskiftum við Landsbankann, ef gæzlustjórarnir yrðu settir inn aftur, þá má geta nærri um það, hvernig slíkri ráðstöfun hefði verið tekið. — Annars er gerð ítarlegri grein fyrir þessu í nefndaráliti minni hlutans, og mun því nægja að vísa til þess. Alt bendir á það, að það hefði verið óforsvaranlegt af stjórninni að láta gæzlustjórana taka aftur sæti sín í stjórn bankans, hvað sem lagabókstafnum líður. „Nauðsyn brýtur lög“, segir íslenzka máltækið, og söm er hugsunin í latneska orðtækinu: „salus publica suprema lex“. Annars er það atriði enn þá óútkljáð af dómsvaldinu, hvort nokkur lög hafi verið brotin með frávikningu gæzlustjóranna. Það mál liggur nú fyrir hæstarétti, hann á eftir að skera úr um kompetence ráðherra í því efni; dómur hæstaréttar í innsetningarmálinu getur ekki gengið fram hjá því spursmáli. Eg hefi bent á það í nefndaráliti minni hlutans, að frávikning gæzlustjóranna, sem var fullkomlega lögleg eftir þá gildandi lögum, hafi ekki getað orðið ógild fyrir það, þó að síðar kæmu í gildi lög, sem afnámu heimildina til frávikningar, ef þau þá gera það. Nú er ætlast til að deildin fari að fella úrskurð um þetta atriði, sem annar gæzlustjóranna hefir skotið undir úrskurð dómstólanna og bíður þar fullnaðardóms. Hann hefir skotið því til dómstólanna og það með réttu, því að hér er að ræða um það, hvort ráðherra hefir farið út fyrir embættistakmörk sín eða ekki. Ef háttv. deild fer nú að grípa fram í og kveða upp dóm um þetta atriði, þá virðist mér slíkt eintóm markleysa og ósamrýmanlegt við 1. gr. stjórnarskrárinnar, því að hlutverk þingsins er ekki að fara með dómsvald, heldur eingöngu, eða því sem næst undantekningarlaust, að eins með löggjafarstörf. — Enn skal eg benda á það, að svo leiðinlega gæti viljað til, að úrskurður deildarinnar yrði í fullu ósamræmi við dóm hæstaréttar í málinu. — Annars get eg að mestu leyti látið mér nægja að vísa til þess, sem um þessa hlið málsins segir í nefndaráliti minni hlutans.

En út af orðum háttv. 5. konungk. þm. áðan vil eg benda á það, að bankavaxtabréf þau sem hann nefndi, að upphæð 587 þús. kr., sem Landsbankinn átti í vörzlum Landmandsbankans um síðustu áramót, voru vitanlega ekki börsgeng og því ekki hægt að selja þau í fljótu bragði, því að eg býst ekki við að neinum detti í hug, að það hefðu átt að setja þau á uppboð. Háttv. konungk. þm. segir, að landsjóður hefði átt að kaupa þau. Eg skal ekki þræta við hann um þetta, það getur verið að það hefði verið heimild til þess eftir bókstaf laganna. En eigi að síður fullyrði eg, að tilgangurinn með því að veita landsjóði hina umræddu heimild til lántöku til þess að kaupa bankavaxtabréf, var sá, að þessu lánsfé yrði varið til að kaupa fyrir það 3. flokks veðdeildarbréf jafnóðum og bankinn gæfi þau út. Og til hvers er líka að tala um það í þessu sambandi, þó að landsjóður hafi átt nóg fé í bönkum hér á þessum tíma, þegar svo stóð á, að mikill hluti þess var í Landsbankanum, kring um 400 þús. kr., en Landsbankinn átti þá ekki nema 159 þús. kr. í kassa. Landsbankinn hefði því alls ekki getað svarað út því sem hann skuldaði landsjóði, og því ómögulegt að grípa til þeirra peninga.

Þá þótti mér undarleg ummæli háttv. 5. konungkj. þm. áðan um víxlakaup starfsmanna bankans. Hann vitnaði í skýrslu yfir þessa ólöglega keyptu víxla, sem ber það með sér, að allir víxlarnir eru nú annaðhvort borgaðir eða framlengdir af nýju bankastjórninni, og átti þetta að vera sönnun fyrir því, að ekkert tap hafi orðið á þessum víxlakaupum starfsmanna bankans. En þetta er hreinn og beinn hégómi. Það segir sig sjálft, að skýrslan sannar ekkert um það. Bankastjórnin verður oft og einatt að framlengja víxla, sem ekki er hægt að fá borgaða, á meðan nokkur von er um að einhverntíma kunni að verða hægt að fá þá borgaða að meira eða minna leyti. Hún hlýtur að líta alt öðru vísi á framlenging víxla, sem bankinn hefir einusinni keypt, heldur en kaup nýrra víxla. —

Það sem mestu máli skiftir hér, er þó það, að af hálfu nefndarinnar hefir ekki farið fram nein rannsókn á því, sem að hefir verið fundið í stjórn bankans. En slík rannsókn væri einmitt alveg nauðsynleg. — Eg hafði nú lítið að segja í þessari nefnd, þar sem eg stóð þar að lokum einn uppi. En eg hefi þó leitast við að afla mér upplýsinga í þessu efni, og í þeim tilgangi gerði eg nokkrar fyrirspurnir til núverandi bankastjórnar. Eg lít svo á, að hinna áreiðanlegustu upplýsinga í þessu máli sé að leita í skýrslu dönsku bankamannanna, sem lesin var upp fyrir nefndinni, því að þeir menn voru fullkomlega óvilhallir. En þar næst hygg eg að beztar upplýsingar sé að fá hjá núverandi bankastjórn, því að hún hlýtur að þekkja bezt þetta mál og vita, hvar skórinn kreppir að.

Upp á þessar fyrirspurnir mínar hefi eg nú fengið svör frá báðum bankastjórunum og margar skýrslur um þau atriði, sem eg hafði spurt um. Eg hefi hér í höndum ekki færri en 8 fylgiskjöl frá bankastjórninni, sem gefa töluverðar upplýsingar í þessum efnum. Þessi skjöl verða rannsökuð í heild sinni í nefnd þeirri, sem skipuð hefir verið í málið í neðri deild. En eg vil þó leyfa mér að benda á það stuttlega hér, um hvað þessi skjöl eru.

Hér er þá fyrst skýrsla um nokkur handveðslán bankans. Mér þótti ástæða til að gera fyrirspurn um þessi lán, því að þar, eins og reyndar víðast hvar annannarstaðar, var framburður gömlu bankastjórnarinnar í allmiklu ósamræmi við lýsingu bankarannsóknarnefndarinnar. Þessvegna spurði eg bankastjórnina á þessa leið: „Lítur bankastjórnin svo á að handveðslán þau, er Landsbankinn átti útistandandi í nóv. 1909, hafi verið í góðu lagi og fullkomlega trygg? Ef svo er ekki, óskast skýrsla um, hverju helzt hafi verið áfátt.“

Hér er nú skýrsla um 10 af þessum handveðslánum og er óhætt að segja, að hvert einasta þeirra er varhugavert, að minsta kosti að því er formhliðina snertir. Það er einkennilegt, sem stendur hér um eitt af þessum lánum, 1200 kr. lán gegn handveði í lífsábyrgðarskírteini; lífsábyrgðin hljóðar uppá 2000 kr., en er einkis virði, þegar lánið er veitt. Hér er annað lán af sama tægi, 4000 kr. gegn handveði í lífsábyrgðarskírteini uppá 4000 kr., en lífsábyrgðin keypt sama árið sem lánið er veitt, og hefir því ekkert verðmæti á þeirri stundu, þegar lánið er veitt. Svo kemur það skrítilegasta, það er 2000 kr. lán gegn handveði, og handveðið er lífsábyrgðarskírteini, sem er dagsett 3 vikum eftir að lánið er veitt, og hefir því þetta handveð sannarlega ekki verið mikils virði.

Þá eru og tilfærð 20 sjálfskuldarábyrgðarlán, þar sem ábyrgðin er fallin úr gildi, vegna óreglu og hirðuleysis, og önnur sams konar lán 13 að tölu, sem eins stendur á með.

Einnig liggur hér fyrir skýrsla um reikningslán, sem bendir ótvírætt á, að um talsverða óreglu hafi verið að ræða í bankanum. Eitt þessara lána þykir mér satt að segja mjög kynlegt; lán það var upphaflega 3000 krónur, en síðan hefir því verið breytt í 5000 kr. á þann hátt, að svo virðist, sem skrifað hafi verið ofan í upphaflegu tölurnar. Eg veit nú ekki betur en það sé alment talinn glæpur, að yfirdraga lán, hvað sem hér kann að verða gert. Þá virðist það og hafa verið nokkuð algengt, að lán hafi staðið árum saman vanrækt; ábyrgðarskjölin ekki endurnýjuð; einnig hefir það komið fyrir, að skjöl, sem þinglesa átti, hafa ekki verið þinglesin. Alt þetta finst mér vera hættuleg óregla, og þessu til sönnunar liggja hér fyrir, um þetta mál, margar og margvíslegar skýrslur, sem örðugt er að hrekja. Háttv. framsögumaður þessa máls, og ýmsir fleiri menn, vilja ekki byggja mikið á því, sem stendur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar — þessarar nefndar, sem öllu átti að skrökva uppá gömlu bankastjórnina — en eg vil leyfa mér að benda á það, að rannsóknamefndin stendur þar fyrir engan vegin ein uppi með skoðun sína á óreglunni í bankanum; dönsku bankastjórarnir, sem rannsökuðu bankann, fundu þar einmitt líka mjög margt athugavert, marga og mikla óreglu.

Þá er ástandið með veðdeildarlánin ekki betra. Um 70 hús eru talin lóðarlaus, eða því sem næst; yrðu þau rifin niður, mundu allir menn hljóta að sjá, að hússkrokkurinn einn er ekki mikils virði, ef engin lóð fylgir eigninni. Mörg veðdeildarlán eru þannig útlítandi, að þau ættu skilið að færast á sérstakan lista. Einnig vantar vátryggingarskírteini fyrir 54 húsum. Þá liggur hér fyrir skýrsla um nokkur lán, er ekki virðist neitt sérstaklega álitleg; eg nefni engin nöfn; ætla einungis að tilnefna nokkrar upphæðir.

1. Einn maður er viðriðinn 171,279 kr.; hann er gjaldþrota.

2. 14,389 kr., líka gjaldþrota.

3. 63,539 kr., einnig gjaldþrota.

4. 152,900 kr.; hefir verið margsinnis reynt fjárnám.

5. 96,976 kr., gjaldþrota.

6. 26,242 kr., gjaldþrota.

7. 2,969 kr.; sá maður ekki gjaldþrota, heldur strokinn af landi burt.

8. 10,309 kr., gjaldþrota.

9. 54,484 kr., gjaldþrota.

10. 50,970 kr., árangurslaust fjárnám.

11. 11,145 kr., gjaldþrota.

Það er ýmislegt fleira í þessari skýrslu, sem telja mætti upp, en ég held að bezt sé að hætta.

Þá liggja fyrir skýrslur um víxla og sjálfskuldarábyrgðarlán, sem sýna það, að hjá málaflutningsmönnum eru til innheimtu kr. 219,138 og 95 aurar; þessi fúlga hefir legið hjá þeim alt árið, en innheimzt hefir í alt rúmt hálft fjórða þúsund. Að vísu er þetta fé ekki alt saman tapað, heldur sumpart í hættu statt. Niðurstaða bankastjórnarinnar nýju hefir orðið sú, að 500,000 kr. séu tapaðar, eða þá að meiru eða minna leyti í hættu. Mér þótti réttara, að háttv. samnefndarmenn mínir hér í deildinni hefðu reynt að rannsaka nokkuð þetta atriði málsins; hvort þetta ískyggilega ástand bankans stafaði af einhverjum slysum eða óhepni, eða af ófullnægjandi eftirliti hinnar fráförnu bankastjórnar; en eg get ekki betur séð, en að þetta sé órannsakað enn.

Eg benti á það í nefndaráliti mínu, að ekki væri rétt gagnvart þjóðinni að kveða upp nokkurn dóm í máli þessu, eins og það nú lægi fyrir, og því held eg fast fram enn. Eins og bent hefir verið á, hefir háttv. meiri hluti nefndarinnar alveg gengið fram hjá því, að rannsaka það sem athugaverðast þótti í bankanum; og án þess tel eg óhugsandi að upp verði kveðinn sanngjarn dómur, hvorki áfellis né sýknunardómur í máli þessu; en nú hefir háttv. meiri hluti eigi að síður kveðið upp dóminn, án þess að hafa t. d. heyrt eitt orð úr skýrslu bankastjóranna dönsku. Með þessu get eg ekki betur séð, en að stofnað sé til fjörráða við alla sanngirni og réttlæti í þessu máli.