18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

120. mál, farmgjald

Pétur Jónsson:

Hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) talaði um þekkingarleysi mitt á verzlunarmálum; mér dettur ekki í hug, að jafna minni þekking í þeim efnum við hans. En ef mín þekking og reynsla í þeim efnum er einkis virði, þá býst eg við, að hans sé ekki mikils virði, og frumv. þetta eykur ekki álit hans þar.

Hann spurði, hvernig ætti að byggja gjald á faktúru, en hvað er betra að byggja á farmskrá? Hvorttveggja má falsa. Ef sonurinn, eins og hann tók til dæmis, sem kaupir vörur erlendis fyrir föður sinn, kaupmann hér, getur sent honum falsaðar faktúrur, mun hann þá ekki geta sent falsaðar farmskrár, einkum ef hann hleður sérstakt skip?

Eg hefi ekki komið fram með neinar breyt.till. við frumv. og skal því ekki fara út í einstök atriði þess. En eg mun greiða atkvæði á móti því í heild sinni því að það er að minni hyggju lítt hugsað handahófsverk og alls ekki fallið til þess að verða að lögum.