29.04.1911
Sameinað þing: 27. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Framsögumaður (Sigurður Sigurðsson). Mér láðist áðan að minnast á brtll. háttv. þm. Seyðf. á þingskj. 803. Hann hefir nú gjört ítarlega grein fyrir henni, þó að eg ekki geti orðið honum sammála. Háttv. 6. kgkj. hefir svarað honum, svo eg þarf þar ekki miklu við að bæta. Eg man ekki eftir neinum hreppi landsins, sem hefir færri en 9—10 búendur, og sá hreppur, sem háttv. þm. Seyðf. átti við, Loðmundarfjarðarhreppur, hefir, ef eg man rétt, 10 búendur. Þó að einhverjir smáhreppar kunni að vera til, þar sem menn ekki geta komið sér saman um að stofna búnaðarfélag með 8 mönnum, þá geta þeir sem vilja það altaf slegið sér saman við nágrannafélögin og gengið í þau. Til skýringar þessu skal eg geta þess, að á Siglufirði hafa menn ekki stofnað búnaðarfélag, og eru búendur þar þó fleiri en 8; en 3 bændur þar hafa gengið í félag með Fljótamönnum. Þetta ákvæði þarf því ekki að hefta framkvæmdir þeirra sem hafa hug á jarðabótum. Eg held því, að brtll. þessi sé fremur til að spilla aðaltillögunni og ætti því að fella hana.

Gagnvart háttv. 6. kgkj. vil ég leyfa mér að taka það fram, að þessi tillaga hefði komið í sameinað þing, þótt við hefðum eigi komið fram með brtll. þessar. — Tillögur okkar finst mér allar vera til bóta, og þær geta aldrei orðið til skaða eða hnekkis jarðabótaviðleitni manna, eins og virtist vaka fyrir háttv. 6. kgkj. Mér finst það eðlilegt, að sýslunefndirnar geti útnefnt fleiri en 1 skoðunarmann, ef það er hentugt og kringumstæðurnar mæla með því. Að heimila það með samþykki Búnaðarfélags Íslands finst mér vera krókaleið og skriffinskulegt og annað ekki. Eg efast ekki um að Búnaðarfélagið mundi leggja til alt hið bezta, en mér finst óþarfi að taka þetta upp, það minnir alt of mikið á skriffinskuna, sem er svo rík hjá okkur Íslendingum. Eg vona því, að þessi brtill. verði samþykt.

Hinar brtill. eru mér ekkert kappsmál. Þeir lærðu mennirnir, háttv. þm. Dalam. og háttv. 6. kgkj., voru að setja út á málið á tillögunni. En það er siður lærðra manna að hengja hattinn sinn á hvað lítinn snaga sem er, þegar við, sem ekki höfum gengið lærða veginn, eigum í hlut. En eg mun ekki taka þeim vísu herrum það illa upp, sérstaklega þegar villan er ekki meiri en það, að hana má leiðrétta í próförk.

Safnþró þykir mér gott og gilt orð, það er gamla heitið í eldri reglunum og að mínu áliti betra en safngryfja. Viðvíkjandi m1, m2, og m3, sem nefndin leggur til að falli burt, en að í stað þess komi metri, fermetri og rúmmetri, þá álít ég það vera til bóta að nota þau orð. Það eru margir menn, sem ekki skilja hvað m1, m2, og m3 þýða, og fyrir því miklu hentugra að nota fyrst um sinn heitin metri, fermetri og rúmmetri.