28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

147. mál, ölgerð og ölverslun

Björn Þorláksson:

Eg vildi að eins leyfa mér að segja örfá orð um frumv. þetta, áður en það verður afgreitt frá háttv. deild. Eg skal játa, að frumv. mundi hafa í för með sér mikinn tekjuauka fyrir landssjóð, ef það nær fram að ganga. Þó hefði eg heldur kosið, að landssjóði hefði verið veitt heimild til þess að setja upp ölgerð fyrir eigin reikning, og að öðrum hefði eigi verið veitt slík leyfi. Ber til þessa tvent. Fyrst hygg eg, að landssjóður mundi hafa enn meiri hag af ölgerðinni, ef hún væri rekin á kostnað landsins. Í öðru lagi ætla eg, og á það legg eg meiri áherzlu, að með því móti fengist meiri trygging fyrir því, að ölið yrði bruggað, eins og vera bæri, hvorki of sterkt né þannig, að það þyldi ekki geymslu og yrði áfengt. Því reynsla er fyrir því, að ólga getur hlaupið í öl, svo að áfengt verður, þó í upphafi hafi ekki verið. Ef landið hefði sjálft með höndum ölgerðina, mundu starfsmennirnir við hana hafa enga hvöt til þess að haga ölgerðinni þannig, að ölið yrði ofsterkt eða ólga hlypi í það við geymsluna. Þetta er það, sem aðallega vakir fyrir mér, svo að eg treysti mér ekki til að greiða atkv. með frumv. í því horfi, sem það er nú í. En þar sem eg kem nú fram með þessa athugasemd, svo seint, veit eg að hún verður ekki tekin til greina. Máli þessu hefir verið flaustrað talsvert, og miður hugsað en skyldi, eins og um mörg önnur mál, sem nú hafa verið rekin áfram í þinginu þessa síðustu daga.

Eg hefi sagt þessi orð til þess að sýna, að eg er ekki með frumv., eins og nú standa sakir. Hefði eg óskað, að því hefði verið frestað á þessu þingi.

Skal eg svo ekki fjölyrða meira um þetta. Að eins vil eg geta þess, að eg hefi óskað nafnakalls um frumv. til þess að atkvæði mitt um málið sæist.