06.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

133. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Benedikt Sveinsson:

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir nú tekið fram margt af því, sem eg vildi sagt hafa. Það var alls ekki til þess að spilla að nokkru leyti fyrir málinu, að eg bar fram þessa brtill., sem samþykt var við 2. umr.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) heldur, að það ákvæði sé málinu til hnekkis, en eg fæ ekki skilið, hvernig það má verða. Að vísu skal eg kannast við það, að mér er ekki fullkunnugt um þann kostnaðarauka, sem af því verður, að stöðin sé svo sterk, að hún geti sent skeyti til Vesturheims, en þótt það verði svo sem 30 þús., þá álít eg, að ekki beri að setja það fyrir sig, því að komist á samband milli Englands og Ameríku með Ísland að millistöð, verður mikill hagur að þessari stöð. Að hafa fleiri millistöðvar en brýn þörf er á, er að eins til hindrunar. Fjarlægðin milli Grænlands og Hellulands er heldur ekki svo mikil, að um mjög mikinn kostnaðarauka geti verið að ræða. Þess ber líka að gæta, að hér er að eins um heimild en ekki skyldu að ræða. (Pétur Jónsson: Ákvæðið nemur burtu heimildina til þess að byggja hina stöðina). Nei! Grænland er í Vesturheimi og því er hér að eins um rýmri heimild að ræða. Ef það þykir borga sig að reisa stöð, sem hafi afl til að senda skeyti til Hellulands, þá er það heimilt, að öðrum kosti gerir stjórnin það auðvitað ekki. Þetta vildi eg taka fram, til þess að sýna það, að eg er ekki að reyna að stofna málinu í neinar ófærur.

Eg er þakklátur háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) fyrir hversu vel hann hefir tekið í brtill. þá, sem eg tók aftur seinast, en hefi nú komið fram með. Eg þykist ekki þurfa að mæla frekara með henni nú, þar sem eg heyri, að henni hefir aukist fylgi, eins og eg gerði ráð fyrir um daginn að hlyti að verða, þegar háttv. þingmönnum hefði gefist kostur á að kynnast þessu atriði betur.