04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

9. mál, prentsmiðjur

Benedikt Sveinsson:

Eg get ekki fallist á ummæli háttv. þm. Vestm. (J. M.) um títuprjónastingina, eða að það sé nokkur ókurteisi, að létta af mönnum þessu gamla tjóðurhafti. Fyrirvaralaust sagði hann. Ættum við þá kannske að fara að spyrja Dani að því, hvort við mættum þetta eða ekki? Eg hélt, að við værum einráðir í því að koma af okkur þessum gömlu höftum frá einveldistímanum og ekki spurði víst konungsvaldið íslenzka útgefendur, þegar þetta var valdboðið fyrirvaralaust 1820. Það er leiðinlegt, að nokkur skuli vera viðkvæmur fyrir öðru eins og þessu. Menn ættu fremur að gleðjast, þegar þinginu dettur í hug að kveða niður slíka drauga, eins og þetta, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) hefir einu sinni svo heppilega líkt við botnlanga, sem nú eigi að sníða burt. Hann hefir nú gert ítarlega grein fyrir málinu, svo eg þarf þar litlu við að bæta. Hér er ekki verið að íþyngja bókaútgefendum, heldur hið gagnstæða, þar sem létt er á þeim þessari kvöð, að senda 3 eintök af hverri bók til útlanda. Ekki er heldur verið að íþyngja þeim, sem selja hér bækur frá útlöndum, þótt þeim sé gert að skyldu að gefa þjóðbókasafninu eitt eintak. Þetta er ekki nema lítil þóknun fyrir réttinn til þess að mega selja bækurnar. Þeir sem verzla með annað verða að gera svo vel og fá sér borgarabréf, og öllum réttindum eiga að fylgja skyldur.

Eg skil ekki, hvernig háttv. þingm. Vestm. (J. M.) hefir getað miklað þetta svona fyrir sér, þar sem hann talaði um »afskapleg ákvæði«. Hitt skil eg, að Dönum leiðist að missa þetta. Þeim hefir fundist það einn þátturinn í drottinvaldinu yfir landinu, að fá með sjálf skyldu bækurnar frá þessari ey, eins og hinum eyjunum sínum, — en þetta breytist nú vonandi eins og fleira.