29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

153. mál, prentsmiðjur

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg vil leyfa mér að taka það fram, að hér er ekki eingöngu að ræða um skyldu fyrir oss, heldur það, hvað er hentugt fyrir oss að gera. Eg hefi athugað það, hversu mikils virði bækur þær eru, sem gefnar eru hér út árlega. Hafði eg ekki verð á öllum bókunum og varð eg því að gizka á verð sumra, en býst við, að það fari þó furðu nærri sanni. Mér telst svo til, að 1 eintak af öllum þeim bókum og blöðum, sem prentuð eru hér árlega, kosti um 180 kr.; hér er þó ekki talið með ýmislegt, sem er nálega algerlega verðlaust. Þrjú eintök af öllu því sem vér látum Dönum í té, er því, 540 kr. virði. Og mest alt af þessu er svo lagað, að það spillir ekki kaupum, þótt það sé látið dönskum bókasöfnum í té, því það er keypt hér en ekki í Kaupmannahöfn. En hvað fáum vér í staðinn fyrir það, sem vér látum af hendi. Vér fáum miklu meira en það sem vér látum burtu. Vér fáum ekki rómanarusl, heldur ágætar bækur. Hér við bætist einnig, að alþingi 1907 samþykti svohljóðandi þingsályktunartillögu, sem eg, með leyfi háttv. forseta, vil leyfa mér að lesa upp. Hún hljóðar svo:

»Alþingi skorar á stjórnina að leita samninga við stjórn Dana um, að hún hlutist til um, að landsbókasafninu verði látið ókeypis í té 1 eintak af helztu bókum og tímaritum, sem prentuð eru árlega í Danmörku, til uppbótar fyrir þau 3 eintök af öllum íslenzkum bókum og blöðum, sem íslenzkar prentsmiðjur eru skyldar til að láta af hendi handa hinni konunglegu bókhlöðu og háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn.«

Alþingi hefir þannig skorað á stjórnina, að hlutast til um, að bókasöfnin hér fái bækur, en ekki skorað á hana að gefa lög. Stjórnin hefir hlutast til um þetta og fengið góðar undirtektir. Landsbókasafnið fær skrá yfir bækur þær, er prentaðar eru í Danmörku og velur það merkilegasta af þeim. Vér fáum margfalt meira en vér látum af hendi. Vér fáum það marg-tífalt endurgoldið. Þetta er mörg þús. kr. sparnaður. Vér fáum ekki rómanarusl, heldur fyrirtaks bækur. Eg er sjálfur bókaútgefandi og tel slíkt ekki eftir. Eigum vér að hlaupa frá þessu samningstilboði frá 1907? Slíkt væri ódrengilegt.

Auk þess höfum vér kynt oss nægilega að þeirri brigðmælgi, sem engri þjóð sæmir, og þolum vér ekki á að bæta vanvirðu vora í því efni. Og í þessu tilfelli höfum vér bert og stórt tjón af brigðmælginni.

Eg finn ástæðu til að geta þess, að mér var ókunnugt um þessa þingsályktun þangað til rétt nú. Annars hefði eg aldrei borið fram frumvarp um að afnema eintökin til konunglegu bókhlöðunnar og háskólasafnsins.