09.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

44. mál, kaup á Skálholti

Jón Sigurðsson:

Því, sem háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) sagði um þjóðjarðasöluna, er eg sammála. Þjóðjarðasalan er mjög varhugavert mál og það hefir verið alt of mikið gert að því, að selja hin fornu höfuðból landsins, En ekki tjáir að sakast um orðinn hlut. Eg tel þess fulla nauðsyn, að landsstjórnin athugi, hvort ekki beri að setja lög um sölu fornra höfuðbóla og þar með athugist um leið, hvort ástæður séu fyrir hendi til að kaupa Skálholt, eins og hin rökstudda dagskrá fer fram á. Þá má það vera hvöt fyrir landsstjórnina til að athuga, hvort ekki hefir verið of langt gengið fram í því að selja jarðeignir landsins.

Hvort fornmenjar eru margar og merkilegar í Skálholti veit eg ekki. Það væri ekki síður takandi til rækilegrar íhugunar, þótt hin rökstudda dagskrá væri samþykt. Og því ætti að samþykkja dagskrána; þar með væri öllum gert til hæfis, bæði þeim, sem vilja láta kaupa Skálholt og eins þeim, sem í vafa eru um það, hvort nægar ástæður eru fyrir sölunni.