09.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

44. mál, kaup á Skálholti

Sigurður Sigurðsson:

Eg hafði ekki ætlað mér að taka til máls í þessu máli. Eg stend að eins upp til að mótmæla þeim orðum háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og háttv. þm. Mýr. (J. S.), að Skálholt sé illa setið og staðurinn niðurníddur og að nú sé jafnvel svo komið, að farin sé að rætast hin forna spá um það, að Skálholt ætti að verða eitt hið argasta kot í Biskupstungum. Þetta er með öllu tilhæfulaust. Enginn kunnugur getur haldið slíku fram. Til þess er þeim einum trúandi, sem annaðhvort aldrei hafa komið í Skálholt, eða þá ekki komið þar í mörg ár. Mér er kunnugt um það, að í síðastliðin 10 ár hefir jörðin verið mjög vel setin. Þar hefir verið mikið unnið að jarðabótum og staðurinn húsaður vel. Það má vera, að háttv. þm. hafi með ummælum sínum átt við það, að kirkjan væri ekki blómleg og er nokkuð til í því. En hér við er það að athuga, að sóknin er fámenn, enda hefir jafnvel komið til tals að leggja kirkjuna niður.

Eg hefi þá tekið það fram, sem eg vildi sagt hafa, að staðurinn í Skálholti væri vel setinn og fyrirmyndar búskapur hjá báðum búendum þar.