11.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

132. mál, stofnun húsmæðraskóla

Framsm. (Pétur Jónsson):

Eg hefi gert svo mikla grein fyrir þessu máli í nefndarálitinu, að eg þarf ekki að fara mörgum orðum um málið.

Sem kunnugt er hefir legið fyrir tilboð frá sýslunefndum Múlasýslna, að þær vildu selja landssjóði Eiðaskólann, með því skilyrði, að þar yrði framvegis rekinn bændaskóli upp á landsins kostnað, líkt og á Hólum og Hvanneyri nú. Milliþinganefndin í landbúnaðarmálinu lagði til, að skóli þessi væri lagður niður sem bóklegur skóli, en þar væri haldið við verklegri búnaðarkenslu á sumrum, og þingið félst á þetta og hefir veitt styrk einungis til verklegrar kenslu. En sýslurnar hafa haldið skólanum uppi síðan með líku sniði og á bændaskólunum er og vilja nú losna við veg og vanda af því. Það er sjálfsagt, að þó alþingi samþykki frumv. það, sem hér liggur fyrir um stofnun húsmæðraskóla á Eiðum, þá er þar í fólgið einungis tilboð þingsins um slíkan skóla. Haldi t. d. Múlasýslur því fast fram, að hafa þar bændaskóla og ekki annað, verður ekkert úr framkvæmd um húsmæðraskóla á Eiðum. En haldi þær aftur á móti ekki því máli til streitu, þá verður stofnaður þar húsmæðraskóli.

Húsmæðraskólamálið hefir fengið talsverðan undirbúning hér á þingi. Fyrst var flutt frumv. 1907 og samþykt í Nd. um húsmæðraskóla á Norðurlandi, en dagaði uppi í efri deild. Þar næst var málið til meðferðar 1909 hjá landbúnaðarnefndinni, og þá samið nefndarálit og samþykt þingsályktunartillaga um að stjórnin undirbyggi og rannsakaði málið til næsta þings. Um aðgerðir stjórnarinnar í því efni er þinginu ekkert kunnugt um. Eg vona nú, þar sem nefndin hefir orðið sammála um að snúast að þessu ráði, að mál þetta sæti ekki mótstöðu hjá hinni háttv. deild, enda fyllilega réttmætt og rétt, að þingið hugsi um, að konur geti átt kost á að búa sig undir æfistarf sitt, jafnt og karlar.