14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Kristinn Daníelsson:

Eg tel óþarft að hafa langa framsögu í þessu máli, en get vísað í nefndarálitið, sem eg hygg að sé allrækilegt.

Eg vil þó geta þess fyrst að slæðst hafa í það tvær villur. Önnur á blaðsíðu 2 „þar með taldar þrjár landsjóðskirkjur“ á að vera fimm og á sömu blaðsíðu 3. línu að neðan „fallast á ákvæði nefndarinnar“ á að vera frumvarpsins.

Eg skal geta þess, að nefndin gekk að þessu starfi með þá hugsun fyrir augum, að hún mundi geta lagt það til, að þessu máli yrði komið í nokkra framkvæmd, en hún sá brátt, að hér voru ýms tormerki á.

Er þar sérstaklega að minnast á afstöðu bændakirkna, ef frumvarpið verður að lögum eins og það liggur fyrir.

Eigendur þeirra geta orðið sviftir þeim fjárstuðningi, sem þeir hafa fullan lagarétt til að njóta til viðhalds kirkjunni, og sér nefndin því ekki annað ráð vænna en að 1. grein frumvarpsins sé feld, og það sem henni fylgir. Það verður ekki annað séð, en að óhjákvæmilegt yrði, að landssjóður bætti eigendum kirknanna tekjumissi þeirra, en nefndin getur ekki gert ráð fyrir, að þingið muni ganga að því, og getur ekki lagt það til.

Aftur sér nefndin fulla nauðsyn á að aðhyllast ákvæði 5. greinar. Þó að öðrum kosti gæti svo farið, að kirkja gæti ekki fengið nauðsynlegt lán úr hinum almenna kirkjusjóði, þar sem trygging yrði þá ónóg.