24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2038 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Framsm. meiri hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Mér var sagt það fyrir nokkrum dögum, mig minnir kveldið eftir að samþykt var rökstudd dagskrá í vantrauststillögunnar stað, að hv. þm. N. Ísf. (Sk. Th.), meðflutningsmaður með mér að tillögu þeirri, sem nú er til umr., væri að kúfvenda í málinu, og er það nú komið á daginn, þótt eg tryði því ekki þá. Nú hefir hann komið með rökstudda dagskrá í stað tillögu okkar. Eg get ekki neitað því, að mér þykja röksemdir hans undarlegar. Eg verð að halda því fram, að það sé réttur og skylda deildarinnar að segja það, sem hún álítur rétt að gera, hvað sem ráðherra kann að segja. Hinn háttv. þm. (Sk. Th.) talaði svo, sem hann liti á rétt gæzlustjóranna, en vér verðum og að líta á rétt þingdeildarinnar. Eins og hún hefir kosið gæzlustjórann, hefir hún einnig rétt til að setja hann inn. Reyndar skoraði háttv. þm. á ráðherra að setja inn gæzlustjórann, og hefir hann með því siðferðislega greitt atkv. með tillögu vorri, og gleður það mig, að hann er oss samdóma í aðalefninu; þetta er að eins formsatriði hjá honum.

Eitt var ekki rétt hermt hjá háttv. þm. (Sk. Th.), en það var það, að málið hafi verið tekið út af dagskrá til þess að bíða þess að bankanefndin hefði lokið störfum sínum. Till. var tekin út af dagskrá, til þess að vér gætum hlustað á umr. í Ed., sem átt að vera daginn eftir. Þegar nú aftur kom áskorun um að taka till. út af dagskrá, lögðum vér til að vísa henni til bankanefndarinnar, en héldum því aldrei fram, að hún ætti að bíða þangað til nefndin hefði lokið öllum störfum sínum. Nefndin hefir lokið við einstök atriði í rannsókn sinni, og mun láta þau koma fram smám saman. En hún mun vart fá lokið öllu, fyr en í þinglok, og varla þá, einkanlega þar sem þrjózkast hefir verið við að láta nefndinni í té gerðabók rannsóknarnefndarinnar, þangað til fyrir 2—3 dögum. Svo sést nú og á gerðabókinni, að haldnar hafa verið 2, ef ekki fleiri gerðabækur, sem nefndin hefir ekki fengið, auk ýmsra annara skjala. Og í þessari gerðabók, sem enn er haldið leyndri, eru skráðir miklu fleiri fundir nefndarinnar, en í hinni, sem fengist hefir sýnd, og það einmitt þeir fundirnir, sem mest (eða nálega alt) áríður. Þessar tálmanir tefja mjög störf nefndarinnar. Eg veit ekki, hvort eg hefi haft rétt eftir fyrv. ráðh. (B. J.), og bið hann leiðrétta mig, ef svo er ekki.

Mér skildist hann láta í ljósi þá skoðun, að málflytjandi fyrir yfirrétti hefði ekki haldið fram, að afsetningin væri til fullnaðar, heldur um stundarsakir. Ef eg hefi tekið rétt eftir orðum hans, virðist mér minni hans vera farið að ryðga. Því til sönnunar skal eg með leyfi hæstv. forseta lesa upp kafla úr stjórnarblaðinu, sem þá var, 26. tbl. 1910. Þar stendur;

»Gert hafði verið ráð fyrir í málfærslunni við fógetarétt og yfirdóm, að landsstjórninni hlyti að vera heimilt að víkja gæzlustjórunum frá, ekki að eins um stundarsakir, heldur til fullnaðar. Það notar yfirdómur til að staðhæfa, að frávikningin 22. nóv. sé fullnaðar frávikning, þótt ekki sé til um það nokkur stafur frá stjórnarinnar hendi, og orðin »um stundarsakir« geti vel merkt marga mánuði, ef svo stendur á«.

Þetta stendur á 1. síðu, en svo hefir blaðið leiðrétt sig á 3. síðu og segir:

»Vér höfum eftir að búið var að prenta fyrstu greinina í blaðinu fengið upplýsingar um, að umboðsmaður áfrýjanda hefir í málsskjali fyrir yfirdómi talið frávikning gæzlustjóranna 22/11 fullnaðarfrávikning. Þessa er getið til leiðréttingar«.

Nú skal eg benda á, hvað landsyfirréttardómurinn segir sjálfur um kröfu stjórnarinnar:

»Þá er það enn varakrafa af hálfu áfrýjendanna, að úrskurðurinn verði ónýttur og algerlega úr gildi feldur, sökum þess að hann sé rangur og ólöglegur að efninu til. Er því í þessu efni haldið fram, að þar sem gert sé ráð fyrir því í úrskurðinum, og hann bygður á því, að stefndi hafi þá enn verið gæzlustjóri landsbankans, þá sé þetta lögleysa, með því að stefnda hafi verið vikið frá gæzlustjórastarfinu til fullnaðar með stjórnarráðstöfunni 22. nóv. f. á., og heimild fyrir þessari frávikningu sé í 20. gr. bankalaganna 1885; það sjáist af þessari grein, samanborinni við 4. gr. í auglýsingu um verksvið landshöfðingja 22. febrúar 1875, að ákvæðið í bankalögunum sé ekki annað en upptekning hinnar almennu reglu í auglýsingunni um vald landshöfðingja til að víkja frá um stundarsakir öllum embættismönnum á Íslandi, en öllum hinum sömu embættismönnum og starfsmönnum, að fráskildum nokkrum dómurum, hafi ráðherrann, sem ber alla ábyrgð á stjórnarathöfninni, vald til að víkja frá til fullnaðar, og séu gæzlustjórar landsbankans einnig háðir þeirri meginreglu. Þá er það og tekið fram, þessum málsstað til stuðnings, að eftir hlutarins eðli hljóti landsstjórnin að reka ýms erindi fyrir hönd alþingis, þegar nauðsyn krefur milli þinga, einnig í þeim málum, sem beint heyra undir úrlausn þingsins, svo sem að skipa til bráðabirgða gæzlustjóra landsbankans«.

Þetta er krafa stjórnarinnar, er hún fer fram á, að fógetaúrskurðurinn verði ónýttur. Svo vitnar málflutningsmaður ennfremur í heimild í bankalögunum fyrir frávikningunni, en landsyfirdómur segir:

»Með því að landstjórnina samkvæmt þessu brast heimild til frávikningar stefnda frá gæzlustjórastarfinu að fullu og öllu . . . verður stjórnarráðstöfunin 22. nóv. f. á., er stefnda var algerlega vikið frá gæzlustjórastarfi við landsbankann, eigi álitin lögum samkvæm, og gat hún því eigi svift stefnda rétti hans sem gæzlustjóra samkvæmt kosningu alþingis«.

Um þetta er dómurinn kveðinn upp, og þetta er það, sem krafa stjórnarinnar miðar að.

Eg skal ekki fara langt út í ræðu fyrv. ráðherra. Hún var mjög hófleg, og í rauninni ekki svo ýkjamikið, sem okkur ber á milli. Hann spyr að því, hvort ekki hafi verið ástæður til að víkja gæzlustjórunum frá, en vér spyrjum, hvort heimild hafi verið til þess. Þetta er dómsmál og er dæmt, og þingið er bært að neyta réttar síns.

Eg vona, að deildin sýni þessum gæzlustjóra ekki minna traust, en Ed. sýndi sínum gæzlustjóra, eða lítilsvirði hann í nokkuru, og vona eg, að engum blandist hugur um það, að sýna honum þann sóma að samþykkja fremur tillöguna en hina rökstuddu dagskrá, þar sem þjóðkunnugt er, að ekki getur vandaðra mann en hann.